138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega til sanns vegar færa að ekkert sé eins og áður var. Einu sinni var það nú þannig að samstarfsflokkur hæstv. ráðherra í ríkisstjórn hefði haldið miklar ræður þegar svona frumvarp hefði komið fram og sagt okkur margar sögur um vonsku frjálshyggjunnar og hvernig færi þegar markaðinum væri afhent uppbygging á innviðum samfélagsins. Svona breytast nú tímarnir og mennirnir með. Nú er það svo að það er ríkisstjórn vinstri flokkanna, með þátttöku VG, sem leggur fram frumvarp með skilyrðislausum stuðningi VG um að fara svona einkavæðingarleið getum við sagt — einkavæðing er kannski ekki alveg rétt — fara frá þeirri ríkisforsjá sem við höfum haft um vegagerðina í landinu. Ég er ekki á móti þessari leið, ég er hins vegar að vekja athygli á því að í þessu felast dálítil pólitísk tíðindi, sem mér finnst óþarfi að liggi í þagnargildi.

Yfirlýsing hæstv. ráðherra var mjög skýr. Það er fullur stuðningur við málið í báðum stjórnarflokkunum, engir fyrirvarar hafa verið kunngerðir eða dúkkað upp eins og í ýmsum öðrum málum. Það er áhugavert að svona sé þetta. Ég styð auðvitað að við getum aukið vegaframkvæmdir í landinu og hraðað þeim með þeirri aðferðafræði sem hæstv. ráðherra kynnir hér. Auðvitað eigum við eftir að skoða útfærsluna og það allt saman, þannig að hér eru uppi allir fyrirvarar. Stóru tíðindin eru hin pólitísku tíðindi sem orðið hafa, vinstri flokkarnir í landinu hafa náð saman um að stofna opinbert hlutafélag um að leggja vegi í landinu. Það eru heilmikil tíðindi.