138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hæstv. ráðherra hugsaði þetta þannig að gjaldtakan, þetta nýja kerfi, þetta framsækna besta rafræna kerfi sem fer í gervihnöttinn, gæti einmitt verið með þeim hætti sem ég spurði um. Það er þá hægt að rukka fyrir Héðinsfjarðargöng, fyrir Óshlíðargöng og fyrir öll þessi göng fyrir vestan og austan sem gerð hafa verið og engin gjaldtaka er á. Það tel ég vera mikilvæga forsendu ef hugsunin er að setja á fót slíkt kerfi vegna þess að það verður aldrei um það sátt að gjaldtakan sé bara á einstökum framkvæmdum á einstöku landsvæði heldur yrði að gera hana að heildstæðu kerfi þar sem farið væri eftir einhverjum almennum reglum.

Ég óttast hins vegar að það verði erfitt að koma slíku kerfi á vegna þess að ég man eftir því þegar olíugjaldinu var komið á á sínum tíma. Þá átti að gera það þannig en svo var farið að taka tillit til alls konar sjónarmiða og alls konar gerða af ökutækjum og eftir atvinnugreinum o.s.frv. Þannig var kerfið sem átti að vera svo einfalt orðið afskaplega flókið og þau almennu sjónarmið sem lagt var upp með í upphafi urðu undir.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessi sjónarmið vegna þess að ef það á einhvern tímann að nást sátt um að setja veggjald á þá vegi sem fólk er búið að bíða eftir í áratugi, ég nefni t.d. Suðurlandsveginn, er ekki mikill skilningur eða þolinmæði hjá íbúum Suðurlands sem keyra þá og eru búnir að fá loforð eftir loforð um að vegirnir komi. Nú koma þeir (Forseti hringir.) en gegn því að það verði veggjald þar.