138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:36]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta orð mín varðandi forsætisnefnd áðan, þau eru ekki áfellisdómur yfir starfi nefndarinnar eða nefndarmönnum sem slíkum, heldur snúast þau um að forsætisnefnd er pólitísk nefnd og þar mun pólitískur meiri hluti ráða niðurstöðu mála. Ég tel einfaldlega að það sé óæskilegt, ekki síst þegar haft er í huga það sem hv. þm. Þráinn Bertelsson sagði áðan um að hið svokallaða meirihlutalýðræði ætti það til að vaða á skítugum skónum yfir minni hlutann. Það er alltaf hætta á því og það má einfaldlega ekki vera til staðar í málum eins og þessum.

Hvað varðar það sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði, þá má vissulega hugsa sér ýmsar aðferðir við að útbúa nýja stjórnarskrá. Ég hef ekki traust á Alþingi eða þingmönnum til þeirra verka. Þeir hafa haft til þess 60 ár og þeim hefur ekki tekist að færa þjóðinni þær lýðræðisumbætur sem tíðkast í nágrannalöndunum. Þeim hefur ekki tekist að ná saman um stjórnarskrárbreytingar. Þeim hefur ekki tekist að lyfta pólitískri umræðu í sölum Alþingis upp úr þeim hjólförum sem þau hafa verið í, síðan stuttu eftir stofnun lýðveldisins. Þannig að ég hef í rauninni einhvers konar eðlislægt vantraust á Alþingi og alþingismönnum, byggt á sögulegri skoðun á framvindu mála á þingi. Ég treysti Alþingi ekki sérstaklega vel, frekar en 90% landsmanna. Þess vegna tel ég brýnt að stjórnarskráin verði unnin með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Með fullri virðingu fyrir því sem hv. þm. Róbert Marshall segir, ég treysti því að hann sjálfur muni af heilum hug vinna eftir sannfæringu sinni. Því miður mun hann ekki fá að ráða nógu miklu í þessum efnum.