138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt eftir lestur nefndarálits meiri hlutans sem þessi skilningur varð til hjá mér og ég vil þá þakka formanni nefndarinnar fyrir það að koma með þessa ábendingu og leiðrétta misskilning minn um þetta atriði. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að sum mál eru þess eðlis að þeim þarf með einhverjum hætti að koma á hreyfingu jafnvel þó að um þau sé ágreiningur.

Ríkisstjórnin hefur valið þá leið í nokkrum stórum málum, eins og t.d. varðandi breytingar á stjórnarskránni — og annað mál sem ég gæti hér nefnt er frumvarp til laga um persónukjör sem var til umfjöllunar á þinginu í vetur, að láta ekkert reyna á samtal við aðra flokka hér á þinginu. Við höfum afskaplega lítið rætt í raun og veru þessi stóru grundvallaratriði um það hvernig kjördæmaskipanin hefur reynst, þ.e. síðustu breytingar sem gerðar voru á henni, um það hvort ekki er stuðningur við það í öllum flokkum að finna leiðir til að tryggja þjóðinni aðkomu að úrslitaákvörðun um stór mál.

Ég vil benda á að við í Sjálfstæðisflokknum afgreiddum á síðasta landsfundi okkar sérstaka tillögu um að færa þyrfti í lög ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Við erum mjög áfram um að taka virkan þátt og eiga samstarf við aðra flokka um þær lýðræðisumbætur sem svo mjög eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu þessi missirin en það hefur afskaplega lítið verið látið á það reyna um hvað við værum tilbúin til að eiga samstarf. Ég er einfaldlega talsmaður þess hér að menn setjist yfir þessi mál af einhverri yfirvegun en æði ekki fram með fullbúin frumvörp eins og mér finnst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gera ítrekað í þessum stóru málaflokkum og gefa sér það síðan sem fyrir fram gefna niðurstöðu að það verði bara að senda málið út úr þinginu, (Forseti hringir.) út af löggjafarsamkundunni vegna þess að aðrir verði að leiða málið til lykta.