138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða breyting á lögum um fjármálafyrirtæki sem við höfum rætt þó nokkuð mikið á vettvangi þingsins, bæði í þingsal og ekki síður í nefndinni. Í grófum dráttum er það svo að við höfum fagnað því að fram sé komið frumvarp sem tekur á þessum þáttum um fjármálafyrirtæki. Þetta er auðvitað eitt af stóru málunum, umfjöllun um frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki eftir bankahrun á Íslandi.

Okkar sjónarmið hafa hins vegar verið þau að við eigum enn eftir að taka á stórum málum sem tengjast þessu. Ég ætla þó ekki að gera lítið úr vinnunni sem hefur verið unnin, það væri engin sanngirni í því. Mjög margt gott hefur verið gert á vettvangi nefndarinnar og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, og meiri hlutinn hefur að mjög mörgu leyti komið til móts við okkar sjónarmið. Sú vinna sem hefur verið unnin á þessu sviði nýtist okkur. Hins vegar er enginn ágreiningur um það í hv. viðskiptanefnd að við eigum eftir að gera mjög margt sem snýr að fjármálafyrirtækjum. Það er meira að segja svo að tillaga minni hlutans um að setja sérstaka nefnd til að skoða þessa þætti, sem eru ekki litlir, verður væntanlega samþykkt. Við erum hins vegar að vinna á miklum hraða eins og við vitum. Ég verð að viðurkenna að ég er órólegur yfir því sem snýr að endurskoðendum í þeirri vinnu. Ástæðan er sú að forustumenn Félags löggiltra endurskoðenda höfðu samband við nefndina og höfðu miklar áhyggjur af því að frágangur málsins væri þannig að þeim yrði gert mjög erfitt fyrir og þetta mundi kalla á stóraukinn kostnað hjá fjármálafyrirtækjum án þess að menn næðu þeim markmiðum sem til er ætlast eða markmiðum sem allir eru sammála um. Markmiðið er einfaldlega að sjá til þess að endurskoðendur séu eins óháðir og mögulegt er við vinnu sína. Forustumenn endurskoðenda telja að orðalag breytingartillagnanna í frumvarpinu sé þannig að þeim muni ekki verða heimilt að sinna ýmsum störfum sem hefur þótt sjálfsagt og eðlilegt fyrir endurskoðendur að vinna fram til þessa. Það eru t.d. hlutir eins og árshlutauppgjör, skattframtöl og slíkt sem snýr að hefðbundnum störfum endurskoðenda.

Samstaða hefur verið um það í nefndinni að markmiðið með breytingunni sé að sama fyrirtæki geti ekki bæði séð um endurskoðun fyrirtækis og sinnt ýmsum ráðgjafastörfum fyrir það, eins og hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum. Þetta þekkjum við kannski ekki mikið í opinberri umræðu á Íslandi en var mjög áberandi í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Þar töldu menn að það hefði truflandi áhrif að hafa þessa hagsmuni samofna, þ.e. að sama félagið keppti um ráðgjafaverkefni og önnur slík verkefni hjá tilteknu fyrirtæki og væri einnig endurskoðandi þess. Í raun var hætta á að endurskoðendur væru að endurskoða sín eigin störf sem er ekki hugmyndin með endurskoðun.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið telur að röksemdir endurskoðenda séu ekki á rökum reistar og hefur ekki áhyggjur af því að þær athugasemdir séu réttmætar. Mitt sjónarmið er að við höfum ekki náð að fara almennilega yfir þetta í nefndinni. Ég held að það væri mjög skynsamlegt að kalla málið aftur til nefndar og fer ég fram á að þetta verði skoðað og annað sem við þurfum að skoða betur. Við höfum tækifæri til þess þótt auðvitað sé stutt til þingloka og augljós vilji meiri hlutans sé að klára málið. Við hefðum talið eðlilegra að klára stóru málin sem út af standa í tengslum við þetta en fögnum því að komin sé breytingartillaga til bráðabirgða, sem orðast svo, með leyfi forseta, „að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Meðal atriða sem nefndin leggur til að verði skoðuð eru staða og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hugmyndir um hvernig best verði hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka“.

Virðulegi forseti. Ekkert af því sem þarna er nefnt er smámál. Þetta eru allt saman mjög stór mál.

Að auki höfum við talið að fara verði yfir það hvort sameina eigi Fjármálaeftirlitið og bankaeftirlit Seðlabanka Íslands. Ég held að flestir sem hafa skoðað það telji að það hafi verið mistök á sínum tíma að skilja þar á milli. Það þarf svo sem ekki annað en líta til þess að við Íslendingar erum fámenn þjóð. Ef marka má niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis eru þær mjög á þann veginn að stjórnsýslan okkar sé ekki nógu sterk og eftirlitsstofnanir séu ekki nógu sterkar. Almennt hefur verið talið að sameinaðar stofnanir eigi auðveldara með að taka á stærri verkefnum heldur en smærri. Hver svo sem rökin voru fyrir því að sundra Fjármálaeftirlitinu og bankaeftirliti Seðlabankans á sínum tíma er í það minnsta skynsamlegt að fara yfir það aftur.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra muni skipa tvær nefndir. Önnur þeirra mun endurskoða lög um Seðlabanka Íslands en hin lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Að fengnum niðurstöðum þeirra nefnda verður hægt að taka afstöðu til hugsanlegs samruna eða breytinga á verkefnasviði stofnananna. Þá eru í rauninni komnar þrjár nefndir í það minnsta, þ.e. nefndin sem verður þá samþykkt, ein nefnd sem skoðar Seðlabankann og þriðja nefndin um opinbert eftirlit. Til að fá heildarsýn held ég að væri skynsamlegt að athuga hvort skella ætti þessu öllu saman í eina nefnd sem gæti síðan sett þær undirnefndir sem hún hefði áhuga á og væru nauðsynlegar í svona vinnu. Staðreyndin er sú að frumvarpið tók ekki mið af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Mikið af því sem við vitum núna vissu menn ekki þegar frumvarpið var samið. Það er skoðun mín að margt gott hafi komið inn í meðförum nefndarinnar en betur má ef duga skal. Ég vek enn og aftur athygli á því að hér er ekki um lítið mál að ræða. Hér er um að ræða hvorki meira né minna en lög um fjármálafyrirtæki.

Það er mjög ánægjulegt að tillaga okkar sjálfstæðismanna sé komin inn í breytingartillögur um að tryggt verði að bankar sem hafa tekið yfir starfsemi fyrirtækis þurfa að selja fyrirtækið innan 12 mánaða. Ástæðan fyrir því að við lögðum þetta fram var einfaldlega sú að við teljum mjög mikilvægt að gefa þau skilaboð að við setjum pressu á fjármálastofnanir sem hafa tekið yfir mjög mörg fyrirtæki, um að þau losi sig út úr þeim rekstri. Ég held að flestir þingmenn hafi heyrt ávæning af því að fólk víðs vegar um landið hefur áhyggjur af ójafnri samkeppnisstöðu sökum þess að fyrirtæki sem hafa baktryggingu banka, svo að segja, keppa við lítil einkafyrirtæki. Þau lifðu af hrunið m.a. vegna þess að eigendurnir sýndu ef til vill meiri ráðdeild en þeir aðilar sem áttu fyrirtækin sem nú eru í eigu bankanna. Það væri til lítils að sýna ráðdeild ef bankafyrirtækin yfirbuguðu þau í samkeppni. Þetta er því miður ekki smámál, þetta er stórmál. Við heyrum um miklar áhyggjur fólks af þessu. Það er að vísu mín skoðun, þó það sé annað mál sem við klárum vonandi ekki síðar en í september, að við þurfum að skoða sérstaklega hvernig unnið var í bönkunum frá hruni og þangað til við settum skipulagt eftirlit með því upp úr síðustu áramótum.

Eins og ég nefndi á mikið af gríðarstórum málum eftir að koma inn í þennan lagabálk eða aðra sambærilega. Ég fagna bráðabirgðaákvæðinu og að nefnd eigi að skoða það. Mig langar að fara yfir hvað á eftir að skoða og ganga frá. Í fyrsta lagi þarf að fara yfir ábendingar þingmannanefndarinnar. Það er mjög mikilvægt og skynsamlegt að skoða þær ábendingar sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sú stóra og innihaldsríka skýrsla er að mestum hluta upplýsingar um hvað miður fór í bankakerfinu og hvað gerðist þar. Það er afskaplega mikilvægt að við nýtum þá miklu vinnu og allar upplýsingarnar til að bæta umhverfi fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir að það sem gerðist gerist aftur. Ég þarf ekki að fara sérstaklega yfir það.

Þá er það staða og starfsumhverfi sparisjóðanna. Því máli hefur þingið ýtt á undan sér frá hruni. Það er eins og allt annað sem menn ýta á undan sér, það vandamál fer ekki neitt. Ég ætla ekki að fara yfir allar þær ræður sem við héldum um þetta fyrir rúmlega ári síðan þegar lokið var við lög um sparisjóðina. Þá vöruðum við því að nákvæmlega það mundi gerast sem er að gerast núna. Nú eru orðnir til ríkissparisjóðir víðs vegar um landið. Spurningin er þá einfaldlega: Hvað er ríkissparisjóður? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað vegna þess að menn vita það ekki. Við vitum ekki hvað við ætlum að gera við þá sparisjóði. Ég held að í hugum flestra sé sparisjóður stofnun sem hefur sérstöðu varðandi eignarhald og er í nánari tengslum við nærumhverfi sitt en gengur og gerist með aðrar fjármálastofnanir. Ég held að í grófum dráttum sé þetta sú hugmynd sem menn gera sér um sparisjóði. Nú er eignarhald þessara sparisjóða að stærstum og jafnvel öllum hluta í höndum ríkisins, þ.e. ríkið á þessar fjármálastofnanir og við höfum enga útgönguleið. Við höfum ekki hugsað um það hvernig eigi að koma þessum sparisjóðum til stofnfjárfesta og hvernig fólki ætti að sjá hag sinn í því að fjárfesta í þeim. Einnig á eftir að skilgreina hlutverkið sem við ætlum þessum stofnunum.

Menn gera þá kröfu til fjármálastofnana að þær hafi ákveðna eiginfjárstöðu, vegna neytendaverndar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að eiginfjárstaða sparisjóðanna sé, ef ég man rétt, fjórfalt eða fimmfalt minni en hjá öðrum fjármálastofnunum. Röksemdin fyrir því er að FME verði falið að skilgreina afmarkaðan markað fyrir hvern sparisjóð fyrir sig svo ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að reksturinn verði of áhættusamur. Sú er hugsunin á bak við þetta í grófum dráttum. Allir vita að þetta er ekki einfalt. Í nútímaþjóðfélagi er ekki einfalt að skilgreina afmarkaðan markað fyrir fjármálastofnun, hvort sem það er sparisjóður eða eitthvað annað. Þá er auðvitað mikil hætta á því að stofnanirnar verði of veikburða og þurfi jafnvel inngrip opinberra aðila eða eftirlitsaðila á næstunni. Ég vona að ég hafi ekki rétt fyrir mér, ég vona það sannarlega, en ég er ansi hræddur um að ef við ýtum vandamálinu áfram á undan okkur þá detti þessar stofnanir inn í bankana, hugsanlega ríkisbankana, á næstunni. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Því miður voru varnaðarorð okkar varðandi sparisjóðina fyrir ári síðan rétt því að málið er einfalt. Það fer ekki frá okkur. Við höfum ekki hugsað um hvaða hlutverki þessar stofnanir eiga að gegna. Meðan svo er er hættan fyrir hendi.

Sömuleiðis á eftir að fara yfir eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt. Það er eitt af því sem við höfum ekki rætt og ekki komist að niðurstöðu um, hvort skynsamlegt sé að bankar og fjármálafyrirtæki eigi vátryggingafélög og vátryggingafélög eigi fjármálafyrirtæki og banka. Á undanförnum árum á Íslandi hefur orðið samþjöppun á þessu sviði. Röksemdin er sú að samþjöppun sé skynsamleg því að fyrirtækið sjái sér væntanlega hag í því að keyra saman viðskiptavini sína, ef þannig má að orði komast, þ.e. að reyna að hvetja viðskiptavini bankans til að kaupa persónutryggingar og skaðatryggingar í vátryggingafélagi sem er í eigu viðkomandi fjármálafyrirtækis. Ég held að enginn, í það minnsta ekki í hv. viðskiptanefnd, hafi mótað sér skoðun á því hvort það sé skynsamlegt og eðlilegt. Það er ýmislegt sem bendir til þess að þetta sé ekki jákvæð eða góð þróun. Það er afskaplega mikilvægt að við myndum okkur skoðun á þessu í það minnsta svo við getum séð hvort við erum sammála eða ósammála. Þetta er eitt af þeim stóru verkefnum sem við eigum eftir að fara í. Það er auðvitað ákveðin hætta í þessu, virðulegi forseti, því að bráðabirgðaákvæðinu fylgir engin tímasetning um hvenær nefndin á að skila af sér. Eins og ég nefndi áðan er um að ræða þrjár nefndir — fjórar nefndir, ég gleymdi nefnd sem á að fjalla um endurskoðendur sérstaklega. Við höfum þá fjórar nefndir og svo sannarlega verður breyting á lögum um endurskoðendur að vera sér. Ég mundi þó ætla að skynsamlegt væri að líta á lög um Seðlabankann og opinbert eftirlit í heildarsamhengi og reyna að komast til botns í því hvort ekki sé skynsamlegt að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Ég hef ekki hitt marga sem hafa mælt með því að hafa þau áfram hvort í sínu lagi. Það er að minnsta kosti þess virði og skynsamlegt að fara sérstaklega yfir það. Ef rök eru fyrir því þarf að kalla þau fram.

Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að vilja dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum. Það er ekki tekið á því með afgerandi hætti í frumvarpinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að dreifð eignaraðild sé að fjármálafyrirtækjum. Af hverju tel ég svo vera? Ég held að stærsta einstaka ástæðan sé sú að við erum og verðum væntanlega með fá stór fjármálafyrirtæki. Við áttum okkur kannski ekki á að í því felst sérstaða okkar. Hún blandast í alla hluti, m.a. í innstæðutryggingakerfið. Hún er ástæðan fyrir því að evrópska módelið sem lagt hefur verið upp með og okkur er ætlað að framfylgja, þ.e. að búa til innstæðutryggingarsjóð sem er einungis með 2–4% af þeim innstæðum sem eiga að tryggja, það gengur ekki upp á Íslandi. Í öðrum löndum eru jafnvel nokkrir tugir fjármálastofnana en hér verðum við væntanlega um ókomna framtíð með tvo, þrjá eða fjóra viðskiptabanka. Þeir eru þrír núna en margir telja að fækka eigi þeim niður í tvo. Það sér það hver maður, og við urðum varir við það, að slíkir risar á þessum litla markaði hafa alveg gríðarleg völd. Við þekkjum það að ekki var farið jafn vel með þau völd og við hefðum viljað sjá. Ég held að flestir séu sammála um að fjármálafyrirtæki séu þannig að þeir sem eiga þar hlut hugsi um að hámarka arðinn af honum en eignist ekki hlut í viðkomandi fjármálastofnun til að beita sér í öðrum tilgangi. Svo sannarlega var umhverfið þannig að fjármálafyrirtækin beittu sér með ýmsum hætti fyrir eigendurna, ég held að maður taki ekki of stórt upp í sig með því að segja það. Þetta er mjög óeðlilegt og eina leiðin til að koma í veg fyrir það er dreifð eignaraðild. Í mínum huga er þetta grundvallaratriði. Við eigum algerlega eftir að taka á þessum þætti.

Það kemur fram í nefndaráliti og kom fram í umræðum í nefndinni hjá meiri hlutanum að menn hafa ekki fundið slík ákvæði í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Nú ætla ég ekki að leiðrétta það, ég hef ekki þær upplýsingar, en ég veit hins vegar að við höfum sérstöðu miðað við flest lönd á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er ekki út af smæð landsins því að það er ekki sérstaklega lítið en hins vegar eru íbúar hér fáir. Á Evrópska efnahagssvæðinu berum við okkur saman við Lúxemborg þar sem búa, ef ég man rétt, 400.000–500.000 manns. Á eynni Mön eru kannski álíka margir íbúar og á Íslandi en á minna landsvæði. Munurinn á Lúxemborg og Íslandi felst í því að Lúxemborg hefur landamæri að mörgum löndum og menn keyra á milli. Þegar keyrt er um það svæði er ekki sjálfgefið að átta sig á því í hvaða landi maður er. Þetta skapar náttúrlega mikinn hreyfanleika og algengt er að menn búi í Lúxemborg og vinni í öðru landi eða búi í Þýskalandi og vinni í Lúxemborg. Þetta er allt önnur staða en á Íslandi. Enginn sem býr í öðru landi fer á milli á hverjum degi til vinnu til Íslands, ekki einu sinni í Vestmannaeyjum. Að minnsta kosti ekki eins og staðan er núna varðandi samgöngur þar þótt ég viti að hv. þm. Eygló Harðardóttir mundi gjarnan vilja sjá þær betri. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég var bara að kanna hvort hv. þingmaður væri að fylgjast með og það er rétt. Hv. þingmaður er að fylgjast með ræðu minni og það er mjög gott. Ég heyrði ekki frammíkall hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar en ég efast ekki um að það hafi verið mjög gott.

Síðast en ekki síst þurfum við að skoða hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Því hefur verið haldið fram, og ástæða er fyrir því, að með því að hafa þetta samtvinnað skapist of mikil áhætta í bankastarfseminni og viðskiptabankastarfseminni. Það tengist mjög mörgu og allt er þetta ein heild og verður að skoða í heildarsamhengi. Það tengist m.a. máli sem er að mínu viti vanbúið en var tekið út úr nefndinni. Það mál, sem er grundvallaratriði, þekkjum við því miður vel en það er innstæðutryggingakerfið. Ef túlkun meiri hluta nefndarinnar er rétt þá er í raun og veru ríkisábyrgð á innstæðutryggingakerfinu. Við getum kallað það ýmsum nöfnum. Menn hafa notað það orðalag að samkvæmt nýju tilskipuninni eigi ríkið að tryggja að til staðar sé innstæðutryggingakerfi og í ofanálag sé hægt að fjármagna það. Með öðrum orðum, þó að innstæðutryggingarsjóðurinn sé sjálfseignarstofnun verður ríkið að tryggja að sú sjálfseignarstofnun geti fengið lánafyrirgreiðslu ef til áfalla kemur. Það er auðvitað ekkert annað en ríkisábyrgð. Þess vegna skiptir máli hvort fjárfestingarbankar eða viðskiptabankar séu í sömu stofnun því það tengist skattgreiðendum beint. Bankar voru einkavæddir til að minnka áhættuna fyrir skattgreiðendur, sú var hugmyndin. Við vorum áður með ríkisbanka og menn hafa tilhneigingu til að gleyma því að það kom til beinna fjárútláta úr ríkissjóði til ríkisbankanna og þeir þóttu ekki mjög burðugir lengst af. Sú fyrirætlun að koma ábyrgðinni frá skattgreiðendum með einkavæðingunni gekk hins vegar ekki upp þegar á hólminn kom og var afskaplega dýrt fyrir íslenska þjóð. Það er ekki hugmyndin. Ég ætla engum nútímastjórnmálamanni að vilja að bankakerfið sé á ábyrgð skattgreiðenda. Hvað þýðir það? Það þýðir að við þurfum að fara í gegnum alla þessa þætti. Þetta eru engin smámál. Við verðum að fá niðurstöðu um hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Ef sú verður niðurstaðan þá þurfum við líka að ákveða hvernig við gerum það því það verður ekki gert yfir nótt. Allt tengist þetta. Fjárfestingarbanki og viðskiptabanki, innstæðutryggingakerfið, eftirlitskerfið, þá Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, og endurskoðendurnir. Þetta hangir allt saman. Það er ekki hægt, virðulegi forseti, að taka bara einn þáttinn og reyna að klára hann sérstaklega og vonast til að maður komist í hitt seinna. Við þurfum að hugsa þetta í samhengi.

Þótt ég sé gagnrýninn á frumvarpið og mér finnist að málin séu ekki kláruð í réttri röð, þá finnst mér frumvarpið hafa batnað þrátt fyrir allt. Það hefur batnað í hvert skipti sem við höfum sett það í nefndina. Ég held að skynsamlegt sé að vísa því til nefndar einu sinni enn og sjá hvernig við komumst áfram með þær athugasemdir sem hafa komið fram og við teljum að þurfi að fara sérstaklega yfir. Ég á ekki von á því, virðulegi forseti, að meiri hlutinn fallist á að við skoðum þetta í sumar og klárum það í september eða í haust og tökum á öllum þeim þáttum sem hér voru nefndir og eru ekki litlir. Í það minnsta tel ég að það sé mikilvægt að við vitum hvenær við ætlum að klára þá. Ef vilji meiri hlutans er að klára þá, þá verðum við vita hvenær. Við sjáum með sparisjóðina að sporin hræða. Síðasta sumar var okkur gert að klára þau mál á nokkrum dögum. Við höfðum uppi varnaðarorð. Því miður voru þau öll rétt. Ég sagði þá að ég vonaðist til að ég hefði ekki rétt fyrir mér. En því miður höfðum við rétt fyrir okkur. Verkefni hv. viðskiptanefndar eru mörg og þeim fækkar ekki. Hættan er sú að ef við ætlum að ýta hlutunum á undan okkur eins og við höfum gert með sparisjóðina muni það vandamál hanga yfir okkur og ekkert gerast. Í rauninni eru sparisjóðirnir skýrt dæmi um það. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að einn daginn, og það fyrr en seinna, tökum við þingmenn eða þeir sem verða á þingi á þeim tímapunkti ákvörðun um að sparisjóðirnir þurfi að renna inn í aðrar fjármálastofnanir. Þá munu menn segja að skynsamlegra hefði verið að hugsa verkið alla leið áður en menn kláruðu það, rétt eins og þessi lög um fjármálafyrirtæki.

Virðulegi forseti. Ég vil samt nota tækifærið og þakka enn og aftur þakka meiri hlutanum í hv. viðskiptanefnd fyrir prýðilegt samstarf en betur má ef duga skal hvað þetta varðar.