138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tel fullt tilefni til að skoða þennan þátt starfsemi viðskiptabankanna sérstaklega og spyrja sig spurninga, t.d. um hvort það sé eðlilegt að ungt fólk fái 100% myntkörfulán til bílakaupa. Það finnst mér komið út fyrir öll velsæmismörk. Ég vænti þess að sjá bankana setja sjálfum sér mun strangari reglur í þessu efni en við höfum orðið vitni að undanfarin ár. Hið sama á við um 100% lán til húsnæðiskaupa, en þau tvö mál sem ég er hér að nefna fléttast auðvitað saman við stóru umræðuna um það hvernig við náum betri tökum á hagkerfinu hér og náum að halda verðbólgunni niðri.

Skoðum t.d. það sem er að gerast í öðrum löndum sem eiga í fjármálakreppu í dag. Sjáum lönd þar sem verðtrygging er ekki svona almenn. Hvað gerist þar? Þar eru það lánveitendurnir sem brenna upp í verðbólgunni. Þar er það fjármagnseigandinn sem tapar þegar kemur verðbólga. Og skuldarinn hagnast á þeirri staðreynd að verðbólga fer yfir hagkerfið. Þessu er öfugt farið hér. Sjáum hvað gerist í Bretlandi þar sem yfir helmingur allra húsnæðislána er með breytilegum vöxtum. Seðlabankinn lækkar vexti — og hvað gerist? Það flæðir súrefni til heimilanna vegna þess að greiðslubyrðin lækkar um leið. Á Íslandi var Seðlabankinn að reyna að hafa áhrif á húsnæðislánamarkaðinn með því að hækka stöðugt vexti. Það gerðist ekkert vegna þess að langflestir voru með fasta langtímavexti verðtryggða á sínum húsnæðislánum. Það sama gerist þegar við erum að ganga í gegnum niðursveifluna, Seðlabankinn hefur verið að lækka vexti en það eykur ekkert súrefnisflæði til heimilanna sem eru föst í þessu umhverfi.

Mér finnst að þessir þættir sem lúta að viðskiptaháttum bankanna verði að vera með í umræðunni um þetta heildarumhverfi sem við viljum skapa.