138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni þann stuðning sem hann hefur sýnt þessu máli frá fyrstu tíð og taka þátt í umræðu sem hann opnar hér um tiltekin atriði. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það var vissulega freistandi að stíga til fulls það skref að bjóða upp á takmarkað skattfrelsi tímabundið til að gera þennan pakka, ef svo má segja, enn meira aðlaðandi fyrir mögulega fjárfesta. Það er hins vegar ljóst að þetta er atriði sem mundi hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs til skamms tíma einmitt þegar við þurfum að velta hverri krónu og tryggja að við eigum lágmarksfé til að standa undir þeirri grunnþjónustu sem við viljum bjóða upp á í þessu landi. Það er niðurstaða okkar í nefndinni að við eigum að eiga þetta uppi í erminni, ef svo má segja. Gildistími frumvarpsins er óvenjustuttur. Það þarf að hefja endurskoðun á þessum ívilnunum eftir rúm tvö ár. Sú endurskoðun þarf að liggja fyrir innan þriggja ára.

Ég nefni líka varðandi þetta með fjármálastarfsemina. Það er skoðun mín og sannfæring að vert sé að vera með löggjöf þar sem ekki eru teknar einhverjar greinar út fyrir sviga en við erum hér auðvitað í fordæmalausum aðstæðum. Við erum með hrunið fjármálakerfi sem er veikburða og mikið vantar upp á að það njóti trausts á alþjóðavettvangi. Ég tel að nefndin hefði þurft að hafa mun lengri tíma til þess að, eigum við að segja, setja fyrir alla hugsanlega leka ef við hefðum á lokametrunum ákveðið að bjóða upp á fjárfestingar í þessum geira.

Svo tek ég undir það að ábyrgð nefndar ráðherra sem á að fara í gegnum umsóknir er mikil og afar brýnt að þeir sem veljast í þá nefnd njóti trausts (Forseti hringir.) og hún hafi ekki yfir sér eitthvert pólitískt yfirbragð.