138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:33]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, ásamt síðari breytingum, og um ráðstöfun þessa gjalds árið 2010. Tilefnið er skýrt, það er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjald sem er nýlega fallinn, þ.e. 27. apríl 2010. Í þessum dómi er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald sé í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að af dómnum verði ekki ráðið að gjaldtakan sjálf sé með öllu óheimil en hins vegar sé ljóst að breyta þurfi því fyrirkomulagi sem gilt hefur varðandi ráðstöfun gjaldsins og eftirlit með því.

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu nú þegar við erum stödd í 1. umr. um iðnaðarmálagjaldið en vildi þó koma upp og lýsa minni afstöðu til málsmeðferðarinnar sérstaklega. Ég heyrði það í umræðum um málið fyrr í dag að einstakir þingmenn gerðu því skóna að málinu yrði hraðað í gegnum þingið á þeim örfáu sólarhringum sem eftir eru þar til þing fer í sumarhlé. Ég vil að það komi skýrt fram að það er ekki ætlun mín sem formanns nefndarinnar. Ég tel að hér sé það stórt mál undir, það stórar spurningar um mannréttindi, mannréttindabrot, félagafrelsi o.fl. að það sé hreint ábyrgðarleysi af iðnaðarnefnd að fara ekki vel og ítarlega yfir málið. Kalla þarf eftir umsögnum færustu manna, kalla til sérfræðinga og fara yfir dóminn sem slíkan, hvað hann þýðir og hvað við þurfum að gera til þess að tryggja það að viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu í samræmi við dómsniðurstöðuna.

Ég tel t.d. nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvort það séu eðlileg viðbrögð íslenskra stjórnvalda við dómnum að halda áfram að innheimta gjaldið. Það er ljóst að frumvarpið gengur út frá þeirri forsendu að gjaldtakan sé í lagi og ef svo er er innheimtan á þessu ári rökrétt. Ef svo er ekki hljótum við að bregðast við frumvarpinu með öðrum hætti og gera tillögu um breytingar.

Það skiptir líka miklu máli hverjar eru fyrirætlanir stjórnvalda varðandi ráðstöfun fjárins ef menn komast að þeirri niðurstöðu að gjaldtakan sé í lagi á þessu ári. Það þarf að tryggja að það sé með engum hætti hægt að halda því fram að gjaldið muni í reynd renna að einhverju leyti til starfsemi Samtaka iðnaðarins. Það er jú kjarninn í dómsniðurstöðunni að ráðstöfun fjárins til Samtaka iðnaðarins sé óeðlileg og óheimil í ljósi ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi.

Fleiri atriði þessa máls þarf að taka til skoðunar. Ég veit að ríkisstjórnin hefur þegar sett í gang skoðun á öðrum sambærilegum gjöldum eins og búnaðarmálagjaldi og fleiri gjöldum sem svipað kann að vera ástatt um, að einstaklingar og lögaðilar þurfi að greiða gjöld til tiltekinna samtaka án þess endilega að vera sammála stefnu þeirra eða hafa áhuga á því að vera aðilar að þeim. Þetta eru allt atriði sem iðnaðarnefnd mun skoða vel og hafa til hliðsjónar. En ég ítreka það að við munum fara mjög vandlega yfir málið. Þetta er mikilvægt mál, hefur miklar mögulegar afleiðingar fyrir samfélag okkar og eina ábyrga afstaðan að mínu mati er að nefndin taki sér góðan tíma til að fara í gegnum það og skili vandaðri niðurstöðu.