138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að umræðan hafi verið málefnaleg þar til hæstv. ráðherra hóf að ræða stjórn fundarins og gagnrýna þingmenn fyrir það að taka þátt í umræðunni og tala um leik. Þangað til var umræðan mjög málefnaleg. Ég fékk ekki svar við því hvort hæstv. ráðherra teldi að mannréttindin hefðu verið brotin þann dag sem dómurinn féll. Hann talaði meira að segja aftur um það að þetta væru nú ekki algild mannréttindabrot, því innheimtan væri í lagi en framkvæmdina ætti jú að laga. (Gripið fram í.) Lögin eru ógild. Lögin brjóta mannréttindi. Það er vandamálið. Ég held að hæstv. ráðherra ætti nú að stilla skap sitt og hlusta á umræðuna og svara því hvort ekki eigi að viðurkenna það að lögin eru mannréttindabrot sem eigi að afnema. Það þarf að setja inn ákvæði til bráðabirgða, láta þau kannski gilda í mánuð eða svo, að það eigi að endurgreiða fjögur ár aftur í tímann til þeirra sem þess óska. Samtök iðnaðarins geta séð um það. Alveg sama um allar afleiðingar, vegna þess að mannréttindabrot eru töluvert alvarlegur hlutur þótt sumir vilji túlka að sumt sé mannréttindabrot, eins og öryrkjadómurinn, og annað ekki. Menn geta ekki ráðið því.

Ég spurði líka hvort ríkisstjórnin væri að hugsa um önnur lög. Ég bendi á það að í gær samþykktum við lög frá ríkisstjórninni um fræðslusjóði sem eru miklu verri en þetta. Þar er gjaldið ekki ákveðið heldur er það samningsatriði. Það er ekki ákveðið í lögum hver á að fá úr þeim sjóði og það er ekkert um það til hvers peningunum skal varið. Það er miklu verra.