138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

Maastricht-skilyrði og upptaka evru.

464. mál
[13:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þetta er um margt áhugaverð umræða. Ég vil nú ekki ganga svo langt að fullyrða að Íslendingar eða íslenska hagkerfið muni uppfylla öll Maastricht-skilyrðin þegar árið 2014. Það er hins vegar mitt mat að við munum uppfylla öll skilyrðin fyrir þann tíma nema það sem snýr að vergum skuldum hins opinbera. Þar verðum við eitthvað yfir mörkum. Ég tel ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að við tökum upp evru árið 2014. Ég held að það muni taka lengri tíma, ekki eingöngu vegna skilyrðanna um opinberar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu.

Ég var jafnframt spurður af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort ég teldi að Evrópusambandið mundi slaka á skilyrðum gagnvart efnahagsstjórn í aðildarríkjum eða ríkjum sem sækja um aðild. Svarið við því er nei. Ég tel að menn muni draga þá ályktun af reynslu undanfarinna missira að það þurfi að hafa meiri aga en minni í ríkisfjármálum og efnahagsmálum innan Evrópusambandsríkjanna. Ég leyfi mér að benda á að þegar horft er til opinberra skulda hefur Evrópusambandið, og reyndar ýmsir aðrir, horft aðeins á einn mælikvarða af nokkrum sem til greina koma. Að mínu mati er það of þröng sýn. Þar hafa menn horft sérstaklega á vergar skuldir hins opinbera. Ég get fært sterk rök fyrir því að það er gagnlegra að horfa á hreinar skuldir þótt vergar skuldir gefi ákveðnar vísbendingar. Jafnframt þarf að taka tillit til bæði skuldbindinga og eigna utan efnahagsreiknings. Ég gengst við því að Íslendingar eru með ákveðnar skuldbindingar utan efnahagsreiknings, en í samanburði við önnur Evrópuríki eru þær mjög litlar.