138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[20:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um samgönguáætlun sem er frekar rýr í roðinu og það er kannski skiljanlegt, í ljósi efnahagshrunsins getur hún hugsanlega ekki verið með öðrum hætti. En ég hef staðið að þeirri vinnu í samgöngunefnd ásamt öllum sem þar sitja og samstarfið hefur gengið vel. Ég mun greiða atkvæði með þessari áætlun í heild sinni á eftir, en fyrst og fremst ítreka ég það að þessi áætlun er samþykkt við mjög erfið skilyrði þar sem lítið er um peninga.

Ég vil þó sérstaklega geta eins liðar sem er í breytingartillögu frá hv. samgöngunefnd þar sem framlög til öryggismála sjómanna eru hækkuð um helming.