138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Forseti. Mig langar að ræða fundarstjórn þar sem ég vil skora á hæstv. forseta að breyta dagskránni. Ég held að það væri réttast að taka til umræðu þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka, í ljósi þess að það hefur komið á daginn sem menn hafa fullyrt að við þurfum að byrja á því að gefa eftir í málum er varða sjávarútvegsstefnu okkar.

Í gær var settur á svið fyrirspurnatími milli eins hv. þingmanns og hæstv. utanríkisráðherra varðandi þessar hvalveiðar, áður en í raun var upplýst hver staða málsins væri. Það er ljóst að Evrópusambandið ætlar, frú forseti, að blanda sér í eina af okkar undirstöðuatvinnugreinum — (Gripið fram í.) sem er sjávarútvegurinn, hv. þingmaður, hvalveiðar eru hluti af honum — þannig að við hljótum að krefjast þess að forseti skoði breytingar á dagskrá til að við getum rætt þetta mikilvæga mál.