138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[13:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það hafi verið algerlega nauðsynlegt fyrir okkur hér á þinginu að taka þessi mál til umræðu í dag. Ég þakka hæstv. efnahagsráðherra jafnframt fyrir hans framsögu.

Um dóm Hæstaréttar er ekkert annað að segja en að hann er gríðarlegur áfellisdómur yfir fjármálakerfinu á Íslandi. Hann er líka mikill áfellisdómur yfir eftirlitsaðilunum. Það sem nú er orðið opinbert er það að fjármálakerfið á Íslandi stundaði í stórum stíl að semja lánasamninga sem fóru á svig við lög héðan frá Alþingi, lög sem höfðu skýran tilgang. Það má svo sem halda því fram að margir hafi brugðist en ábyrgð þeirra sem stunduðu viðskiptin, stóðu að baki gerð samninganna, og þeirra sem höfðu eftirlit með fjármálakerfinu, er að sjálfsögðu mest. Dómur Hæstaréttar er mikill áfellisdómur fyrir fjármálakerfið og eftirlitsaðilana. Ekki er hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu.

Ég vil segja um þá umræðu sem hér hefur farið fram undanfarna daga að það er ekki hlutverk okkar hér á þinginu að hlutast til um niðurstöðu í dómsmálum. Það er hlutverk okkar að setja lög og reglur en það er síðan dómstólanna að leiða fram niðurstöðu á grundvelli þeirra reglna. Þannig er það í sjálfu sér ekki hlutverk okkar á þinginu að hafa skoðun á því ágreiningsefni sem nú er uppi í þjóðfélaginu, hvort til grundvallar þessum samningum skuli leggja óverðtryggða vexti eða vexti sem kveðið er á um í samningunum sjálfum. Úr því álitaefni hljóta dómstólarnir á Íslandi að þurfa að leysa. Við hljótum að halda áfram að treysta á réttarríkið á Íslandi, á þrískiptingu ríkisvaldsins, á að við setjum reglurnar og dómstólarnir dæmi eftir þeim. Það er afar óheppilegt og algerlega óásættanlegt að svona misvísandi skilaboð komi, annars vegar frá ríkisstjórninni og hins vegar frá fjármálafyrirtækjunum sjálfum.

Við heyrðum hæstv. efnahagsráðherra greina frá því að fjármálakerfið væri ekki búið undir það að gengistryggingin haldi ekki á þessum samningum en að erlendu vextirnir haldi.

Undanfarna daga höfum við hins vegar heyrt frá bönkunum sjálfum, annars vegar beint frá Arion banka — ég vísa hér í frétt af mbl.is þar sem segir, með leyfi forseta:

„Arion banki hefur metið dómsniðurstöðu Hæstaréttar vegna gengistryggðra bílalána og möguleg áhrif á eigið fé bankans. Kæmi til þess að Íbúðalán bankans verði dæmd ólögmæt, hefði það neikvæð áhrif á eigið fé bankans, en ekki að því marki að það stefni efnahag bankans í hættu.“

Það er alveg augljóst á þessari yfirlýsingu frá bankanum að hann hefur ekki áhyggjur af stöðu sinni vegna niðurstöðu Hæstaréttar.

Það sama má segja um Íslandsbanka, með leyfi forseta:

„Íslandsbanki hefur á síðustu dögum farið vandlega yfir dómsniðurstöðu Hæstaréttar vegna gengistryggðra bílalána og metið hugsanleg áhrif Hæstaréttar á eigið fé Íslandsbanka. Fari svo að öll án í erlendum myntum til einstaklinga verði dæmd ólögleg, gæti nafnvirði slíkra krafna bankans á viðskiptavini lækkað töluvert.“

Síðan segir í þessari yfirlýsingu frá bankanum að það hafi þó ekki þau áhrif að hann uppfylli ekki eiginfjárkröfur.

Hæstv. forseti. Við fáum mjög misvísandi skilaboð hér í umræðunni og allur almenningur í landinu og á afar viðkvæmum tíma. Jafnvel er gefið í skyn að fjármálakerfið sjálft sé í hættu. Þá hljótum við að spyrja okkur: Var staðið þannig að stofnun nýju bankanna að menn hafi ekki gætt að því að eignir væru færðar á of háu verði inn í nýja bankakerfið? Eða hvað er nú hægt að segja um þá áreiðanleikakönnun sem fór fram á eignasafni nýja bankakerfisins? Hverjir bera ábyrgð á því aðrir en Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin að hafa ekki stofnað þannig til nýja bankakerfisins að hlutir eins og þessir mundu lenda á íslenskum almenningi? Það er augljóst að hafi virði eigna gamla bankakerfisins verið jafnvel enn minna en áætlað var við stofnun nýju bankanna á það að vera tap kröfuhafa alveg eins og allt það tap sem hingað til hefur lent á þeim. Það skal enginn segja mér að hægt hafi verið að stofna hér nýtt bankakerfi, þar sem yfir 6.000 milljarðar voru færðir á reikning kröfuhafa bankanna — en ef það bætast við 100 milljarðar, 200 milljarðar, 300 milljarðar, vegna dóms Hæstaréttar þá sé það vandamál alls almennings á Íslandi. Það getur ekki verið niðurstaðan.

Ég vil óska eftir því að skýrari skilaboð komi frá ríkisstjórninni, að okkur sé ekki boðið upp á að það komi hvor sín röddin úr bönkunum og frá ríkisstjórninni í þessu máli. (Forseti hringir.) Það hvílir mikil ábyrgð á herðum þeirra sem hafa eftirlit með fjármálakerfinu og bera ábyrgð á þessum málaflokkum, að tala af (Forseti hringir.) ábyrgð og festu og koma með skýr skilaboð. Og ekki gefa í skyn að við hér á þinginu ætlum að grípa inn í, þ.e. til þess að vinda ofan af niðurstöðunni.