138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[16:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að greiða atkvæði um fjögur frumvörp og þau eru öll mjög mikilvæg. Ég ætla að lýsa þessu með líkingu: Við erum að búa til spítala, það er í rauninni það sem við erum að gera, fyrir fólk sem er við illa fjárhagslega heilsu og við ætlum að reyna að koma því fólki til fjárhagslegrar heilsu. Út á það gengur þetta. Við ætlum hins vegar ekki að setja alla þjóðina inn á þennan spítala, við verðum auðvitað að gæta að því að samfélagið sé við góða heilsu og þurfi ekki að fara á spítala, svo ég haldi áfram með líkinguna. Það er auðvitað eitthvað sem við verðum að ræða miklu betur í þingsalnum til hvaða almennra aðgerða við þurfum að grípa til að koma þjóðfélaginu öllu til fjárhagslegrar heilsu með skuldaleiðréttingu. Við þurfum að skoða vaxtastigið, við þurfum að skoða atvinnustigið miklu betur, eins verðlagið og þar fram eftir götunum. Dómur Hæstaréttar mun vonandi örva efnahagslífið eitthvað en við þurfum að koma þessari umræðu upp úr þeim hjólförum sem hún hefur verið í undanfarið, (Forseti hringir.) alveg síðan hrunið brast á. Það er næsta skref.