138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Síðasti ræðumaður komst þannig að orði hér að hún þakkaði hv. utanríkismálanefnd það að hafa lagt á sig ferðalag til Akureyrar til að sinna þessu máli. Ég ætla ekki að taka undir þær þakkir, ég tel þetta sjálfsagt mál og tiltölulega löðurmannlegt að leggja þetta litla ferðalag á sig til að sinna svona mikilvægu máli. (Gripið fram í: Taka það sérstaklega fram.) Það á ekkert að þurfa að þakka fyrir slíkt heldur eiga nefndir Alþingis að þakka fyrir að fá að koma og njóta þess að fá tækifæri til að sinna góðu verki á Akureyri.

Ég vil enn fremur bregðast við orðum hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann skorar á hv. þingmenn kjördæmisins að leggja sér nú lið við að útvega fjárveitingu til þessa verkefnis. Lítil eru þá fjárráð hæstv. ráðherra ef ekki er hægt að öngla saman fyrir einni lítilli ráðstefnu, en ekki skal standa á mér í því verki að leggja honum lið við það ef skortir silfur til þess. Ég tek eftir því að í nefndarálitinu kemur fram að það er ekki verið að merkja til þess fjármuni heldur lít ég svo að nefndarálitið taki undir þær áherslur sem hafa verið við lýði fyrir norðan um að að standa beri vörð um það góða starf sem hefur átt sér stað í tengslum við Háskólann á Akureyri og út frá honum á sviði norðurslóðamálefna. Alþekkt er og hefur spurst mjög víða sú ágæta vinna sem þar hefur farið fram og smitaðist í rauninni út frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem hefur unnið sér mjög gott orð á þessum vettvangi sem snýst um málefni norðurslóða.

Það skal undirstrikað hér að stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefur átt nokkuð undir högg að sækja varðandi fjárveitingar. Hefur þurft að berjast fyrir hverri krónu þar inn og þetta er sú stofnun sem að mínu mati hefur mest vægi í því að halda nafni Íslands á lofti í því umhverfi sem fjallar um þessi mál hjá svæðum og sveitarfélögum umhverfis norðurskautið.

Ég vil nefna það líka að á Akureyri, fyrir utan þá starfsemi sem háskólinn hefur sinnt og tek ég undir orð hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur áðan varðandi heimskautaréttinn, er vaxtarbroddur eða vísir að námi og fræðistörfum sem tengjast þessu sem hefur skotið þarna rótum og ber að rækta með einhverjum hætti. Þá kem ég að því sem kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra um þá samkeppni sem hann gæti vel séð fyrir sér varðandi ráðstefnuhald á þessu sviði.

Ég er ekki alls kostar sammála því að við Íslendingar eigum að fara í mikla samkeppni, sérstaklega á háskólasviði, um þá starfsemi sem þarna á sér stað. Við erum tiltölulega litlir í þessu sambandi á norðurslóðum og þurfum að kappkosta að stilla saman krafta okkar til að eiga einhverja von í því að keppa við aðrar þjóðir um þau tækifæri sem þarna eru fyrir hendi. Ég þekki þetta ágætlega þó ekki væri nema fyrir þá reynslu sem ég hafði þegar ég gegndi stöðu bæjarstjóra á Akureyri. Þá varð Akureyri fulltrúi Íslands í samstarfi sveitarfélaga og svæða við norðurskautið og gekk í þau samtök við hátíðlega athöfn á ekki ómerkari stað en Smolny-höllinni í Leníngrad sem einhverjir hér inni kannast við. Það var mjög áhrifarík athöfn og maður upplifði smæð sína í því samhengi, ekki bara inni á þeim merka stað heldur líka þegar maður varð var við það hversu stórar og miklar einingar þessi samtök, þessi svæði, þessi sveitarfélög eru sem við störfum með þarna. Við erum smápeð í því sambandi og háskólinn okkar er það líka og sá vaxtarbroddur sem þarna er.

Ég tek hins vegar undir orð hæstv. utanríkisráðherra og vil jafnframt nýta þetta tækifæri til að þakka honum aðkomu að því þegar við vorum að berjast um tvær stofnanir sem þarna spruttu upp út frá störfum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem voru CAFF og PAME. Þó að það hafi kannski ekki æxlast eins og æskilegt var var vilji hæstv. ráðherra óskoraður í þeim efnum að reyna að byggja upp það ágæta starf.

Ég vil fjalla örlítið um þá hagsmuni sem hann nefndi að við hefðum af því að taka okkur stöðu í þeim málum sem þarna er um að ræða. Ég vil nefna þetta sérstaklega út frá því sem ég kom örlítið að áðan sem laut að samkeppni háskóla. Við sáum það líka í tengslum við vinnu sveitarfélaga, sérstaklega hafnarstjórna, um höfn tengda opnun siglingaleiðarinnar yfir norðurskautið að þar voru menn farnir að vinna hver í sínu horni og eyða kannski ómældu fé til þeirra þátta í stað þess að stilla saman strengi og reyna að nýta þær fáu krónur sem Íslendingar höfðu úr að spila til að geta með skynsamlegu viti markaðssett hafnarsvæði á einhverjum einum tilteknum stað á landinu þegar við vorum að keppa við Noreg og Orkneyjar, ef ég man rétt, í þessu sambandi.

Þá lýtur þetta að spurningunni um hvaða hagsmuni við ætlum að taka í þessu og með hverjum við ætlum að vinna. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á það hér hvernig Kanadamenn ætluðu sér að fara með okkur og við höfum séð og upplifað vilja og áhuga Kínverja til að taka sér stöðu á þessum slóðum og ekki skal ég lasta það. En ég tel að við ættum að fara tiltölulega varlega í þau samskipti og halla okkur frekar að því að reyna að mynda einhvers konar bandalag með þjóðum sem standa kannski nær okkur á þeim slóðum sem við erum nú og horfi ég þá sérstaklega til Norður-Ameríku, Kanada og Noregs í því sambandi. Ég tel að það sé möguleiki fyrir okkur að ná ágætri samstöðu meðal þeirra þjóða til að standa vörð um þá hagsmuni sem við höfum af þessu máli.

Ég vil undir lokin þakka þeim sem komu að þessu máli og utanríkismálanefnd sérstaklega og heiti á hana að standa vörð um þær áherslur sem koma fram í nefndaráliti hennar gagnvart þeirri þingsályktunartillögu sem hér hefur verið flutt og vil ítreka það að Norðlendingar allir standa vörð um þetta verkefni. Þetta er ekkert sérbundið endilega því ágæta sveitarfélagi sem hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir nefndi áðan. Þetta er miklu stærra mál en svo og því ber að fagna þegar tekið er undir þetta. En ég heiti á menn að leggja þessu liðsinni sitt og mun, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, leggja ráðherranum lið við að leita þeirra króna sem í þetta þarf ef hann á í vandræðum með að fara ofan í skúffurnar sínar.