138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[13:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Úr því að talið berst að orku mætti spara talsvert rafmagn með því að festa hér púltið í lægstu stöðu, það væri ágætisbyrjun. [Hlátur í þingsal.]

Ég held áfram með mál mitt vegna þess að hér er talað um stefnu í orkumálum. Hreyfingin er að sjálfsögðu ekki með sjálfstæða stefnu í orkumálum en ég leyfi mér að benda á að sú stefna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og síðar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn leiddi til þeirrar flækju sem komin er upp úti um allt land í orkumálum og virkjanamálum. Það er sú flækja sem verður til vegna samspils stjórnmálamanna og viðskiptalífs. Ég veit ekki hvar ég á að byrja. HS Orka, Reykjanesbær, Fasteign, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun Power, Geysir Green Energy, Magma Energy — það er sú flækja sem stefna Sjálfstæðisflokksins kom þjóðinni í í orkumálum, við skulum bara hafa það á hreinu. Það verður sennilega ekki hægt að vinda ofan af henni.

Ef mönnum er umhugað um störf, sem ég trúi svo sannarlega að mönnum sé, er einfaldasta og fljótvirkasta leiðin einfaldlega fyrir alla þingmenn og þar með iðnaðarráðherra að beita sér fyrir því að þeim afla sem úthlutað er hér úr sameiginlegum kvóta landsmanna verði landað á innlenda uppboðsmarkaði. Þar með yrðu til sennilega um 4.000 störf á þeim tíma sem það tekur að ráða fólk í vinnu, það eru u.þ.b. 2–3 vikur. Það er leiðin sem á að fara til að byrja með.

Það má svo tala um hitt, Norðlingaölduveita mundi sennilega búa til 10–12 störf í stóriðju ef af henni yrði. Það er allt og sumt.