138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla örlítið að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Þór Saari skildi við hann. Ég tel nauðsynlegt að halda því til haga að sú leið að velja frambjóðendur á framboðslista í prófkjörum sem eru eftir atvikum tiltölulega stór og margir taka þátt í, var auðvitað valin og sú þróun átti sér stað til að sem flestir kæmu að ákvörðun, til að lýðræðislegri aðferð væri beitt. Þessi aðferð er langt frá því gallalaus, við þekkjum það. Við getum nefnt ótal dæmi um óæskilegar sviptingar í prófkjörum, óeðlilegan fjáraustur og fleira þess háttar. Það er allt satt og rétt. En engu að síður er það í mínum huga að efna til stórra prófkjöra þar sem tiltölulega stór hópur flokksmanna eða stuðningsmanna flokks getur komið að og kosið frambjóðendur, í grunninn lýðræðislegri aðferð en sú að það sé ákveðið á þröngum klíkufundum hverjir sitja á framboðslista. Ég hef örlítinn samanburð í þessu bæði sem frambjóðandi í þremur prófkjörum og eins átti ég þar áður sæti í kjörnefndum Sjálfstæðisflokksins í allnokkur skipti sem höfðu það hlutverk að stilla upp á lista, í sumum tilvikum án þess að á undan færi prófkjör. Ég verð að játa að af tvennu illu — það er ekki góð leið til í þessu sambandi — finnst mér prófkjörið skárri leið en hitt. Hvernig við sníðum agnúana af þessu fyrirkomulagi er kannski umræða sem á ekki endilega heima hér í dag. Við getum rætt lengi um það.

Ég vildi hins vegar í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram taka undir það með hv. þm. Þór Saari að það frumvarp sem hér liggur fyrir felur auðvitað ekki í sér einhverja endanlega lausn á því viðfangsefni sem við erum að glíma við. Til dæmis í málflutningi mínum í allsherjarnefnd þegar þetta kom til umræðu tók ég eindregið undir með hv. þm. Þór Saari um að þetta frumvarp væri auðvitað ekki einhver allsherjarlausn á því sem við erum að glíma við í þessu sambandi. Við getum verið sammála um það. Við getum verið sammála um að þrátt fyrir að frumvarpið verði samþykkt verður þetta viðfangsefni, hvernig á að fjármagna stjórnmálastarfsemi og framboð einstaklinga og flokka, áfram vandamál sem við þingmenn komumst ekkert hjá að taka afstöðu til. Þá stöndum við frammi fyrir tvennu: Annars vegar því að leggja þetta frumvarp til hliðar og fara í þá grundvallarumræðu sem allir gera sér grein fyrir að er nauðsynleg. Það er auðvitað valkostur. Það er auðvitað valkostur að fara að eins og hv. þingmaður Þór Saari segir, að leggja þetta bara til hliðar og taka áfram grundvallarumræðu á vettvangi allsherjarnefndar eða annars staðar um það hvernig við viljum haga framtíðarfyrirkomulagi þessara mála sem við erum sammála um að er ekki einfalt viðureignar. Og hins vegar því að ljúka afgreiðslu þessa frumvarps. Það er hinn valkosturinn og sá valkostur sem ég stend að sem nefndarmaður í allsherjarnefnd, að ljúka þessu frumvarpi, gera þær breytingar sem það felur í sér þó að þær gangi skammt að mörgu leyti, þær fela þó í sér lagfæringar á núverandi fyrirkomulagi, og taka síðan til við að fara í heildaruppstokkun, uppskurð eftir atvikum sem nauðsynlegur er á þessu sviði.

Þetta er mismunandi nálgun á málinu. Ég hallast að því í þessu máli að það sé betra að klára frumvarpið, gera þær lagfæringar sem það felur í sér. Ég sé ekki að staða okkar verði á neinn hátt verri við að ljúka afgreiðslu frumvarpsins, ég sé það ekki, ég get ekki fallist á það. Ég held að við þingmenn ættum að klára þetta frumvarp, ljúka því, en með fullri vitund um það og í samstöðu um það að við séum ekki búin að klára fjármögnun stjórnmálaflokka eða framboða sem viðfangsefni.

Að þessu sögðu, hæstv. forseti, vil ég nefna eitt atriði sem ég held að sé afar mikilvægt að við höfum í huga í þessari umræðu. Ég sagði áðan að frumvarpið fæli í sér lagfæringar á þeim lögum og lagareglum sem nú eru fyrir hendi í þessum efnum. Þær reglur eru tiltölulega nýjar. Þær voru samþykktar hér á þingi í árslok 2006 og tóku gildi um mitt ár 2007. Breytingin sem þá var samþykkt var auðvitað miklu róttækari en nokkur sú breyting sem við erum að gera með þessu frumvarpi. Þá var í fyrsta sinn stigið það skref í allgóðri samstöðu í þinginu, allvíðtækri samstöðu í þinginu, að setja með lögum ramma um fjármál stjórnmálaflokka og framboða og setja því verulegar skorður hversu háum styrkjum flokkar og framboð mættu taka við. Slíkar takmarkanir voru ekki fyrir hendi áður. Engar slíkar takmarkanir voru fyrir hendi fyrir lögfestingu og gildistöku laganna frá árslokum 2006, engar slíkar reglur voru fyrir hendi, þannig að þá var stigið mjög stórt skref í því að koma böndum á fjármál flokka og framboða. Það sem við erum að gera núna eru auðvitað einhverjar lagfæringar á því kerfi sem þá var lagt upp með. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga í þessari umræðu einmitt vegna þess að þau tilvik og dæmi um óeðlilega há framlög, óeðlilega mikinn kostnað eða gríðarlega há framlög einkum fyrirtækja til einstakra framboða og flokka, sem áttu sér stað sérstaklega fyrir kosningar 2006 og 2007, áttu sér stað fyrir gildistöku þessara laga.

Það er ekki með sanngirni hægt að segja að þau tilvik sem gagnrýnd eru m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og dregin eru þar fram leiði með einhverjum hætti í ljós galla núverandi fyrirkomulags. Þar erum við að tala um dæmi um milljóna jafnvel tugmilljóna framlög sem allir eru sammála um í dag að hafi verið óeðlilega há en gætu ekki átt sér stað samkvæmt núgildandi lögum. Við getum því ekki komið hingað og sagt að dæmin í rannsóknarskýrslunni sýni okkur að núgildandi fyrirkomulag sé hrikalegt. Það er ekki sanngjarnt af því að dæmin sem dregin eru fram í rannsóknarskýrslunni eru úr öðru lagaumhverfi en við búum við í dag. Við megum ekki gleyma því að nú er það svo í dag að hvorki flokkar né framboð mega taka við hærri framlögum frá einstökum aðilum en sem nemur 300 þús. kr. 180 eða 190 félög sjálfstæðismanna á landinu geta ekki sótt um styrki frá sama fyrirtækinu, eftir atvikum fyrirtæki sem er starfandi um allt land, nema sem nemur 300 þús. kr. Ef sjálfstæðisfélagið á Húsavík fær styrk frá N1 upp á 300 þúsund kall er kvótinn fyrir landið þar með tæmdur. (ÞSa: Ekki samkvæmt þessu frumvarpi.) Jú, jú. Það er ekki verið að opna það eftir mínum skilningi. Ef hv. þingmaður Þór Saari sér betur í gegnum það biðst ég afsökunar og bið hann að skýra það fyrir mér.

Staðreyndin er sú að sú gríðarstóra breyting átti sér stað 2007 að þessar miklu takmarkanir voru settar. Þá var líka tekin sú afstaða að framlög yfir tilteknum mörkum þyrftu að vera opinber, þannig að leynileg framlög sem einhverju skipta, sem einhverju nema eru ekki möguleg í dag. Það er ekki mögulegt miðað við núverandi lagaumhverfi að menn geti þegið milljónir í styrki án þess að gefa upp frá hverjum það er nema það sé frá alveg óskaplega mörgum litlum aðilum, aðilum sem mega ekki vera tengdir innbyrðis nema eftir ákveðnum reglum. Það er ekki mögulegt í dag. Það er ekki mögulegt eins og gerðist að frambjóðendur í prófkjörum geti tekið við hærri upphæðum en sem nemur 300 þús. kr. og í þeim tilvikum þurfa þeir að gefa upp hverjir áttu í hlut. Þannig er umhverfið í dag.

Þau dæmi sem m.a. rannsóknarskýrslan varpar ljósi á og fjölmiðlar hafa mikið fjallað um, og við getum verið sammála um að eru ekki góð, eru óæskileg og ekki til fyrirmyndar, ekki til eftirbreytni og hefðu ekki átt að eiga sér stað. Mjög há framlög, sérstaklega lögaðila til einstakra frambjóðenda og flokka, geta ekki átt sér stað í dag. Þar er þak á framlögunum miðað við núgildandi lagaumhverfi upp á 300 þús. kr. sem menn eins og þeir sem hafa eitthvað komið nálægt þessum málum vita að dugar skammt þegar kemur að t.d. útgáfustarfsemi eða auglýsingakostnaði, einhverju slíku. Menn fara ekki langt á 300 þúsund kallinum. Þannig að hættan, ef við tölum með þeim hætti, á því að einstakir aðilar, einstök fyrirtæki, kaupi sig til áhrifa eins og hefur verið nefnt ítrekað hér í umræðunni, er auðvitað miklu minni og allt önnur í dag en hún var fyrir gildistöku laganna frá árslokum 2006. Þetta er bara staðreynd sem við verðum að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Þess vegna getum við ekki horft á rannsóknarskýrsluna eða fjölmiðlaumfjöllun með þeim hætti sem stundum er gert í umræðunni og sagt: „Sko, þetta segir rannsóknarskýrslan, sko, þessi dæmi hafa verið leidd í ljós, þetta var svakalegt, þess vegna er kerfið okkar ómögulegt.“ Það er ekki rétt af því að í millitíðinni hefur lagaumhverfinu verið breytt verulega og miklar skorður settar, verulegar skorður, bæði við fjárhæð framlaga og eins er sett þak á það hvaða framlög geta verið veitt án þess að upp sé gefið hverjir veitendur styrkjanna eru. Þetta er alla vega staðreyndin.

Við búum ekki við fullkomið kerfi. Við höfum ekki fundið þessa fullkomnu lausn. Þegar við höfum klárað þetta frumvarp sem lagar stöðuna erum við heldur ekki komin á endastöð. Við erum ekki búin að klára málið, ég viðurkenni það, en við erum þó í miklu skárra umhverfi en við vorum lengst af. Því ber auðvitað að fagna og við verðum að halda því til haga að þessum hlutum hefur miðað fram. Hætturnar sem alltaf felast í fjármögnun stjórnmálastarfsemi eru miklu minni en þær voru sem betur fer. Og kannski stafar vandinn sem við eigum við að glíma, hvort sem við köllum það skort á trausti, ímyndarvanda eða annað, fyrst og fremst af því að við erum ekki búin að gera upp mál úr fortíðinni og höfum ekki náð að vekja nægilega athygli á því hvernig umhverfið hefur þó breyst til batnaðar, því að það hefur breyst til batnaðar.

Þetta vildi ég segja í þessari umræðu um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við það að málið verði klárað í þeim búningi sem það er lagt fram af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar. Ég er reiðubúinn og ég þykist vita að flestir séu það. Ég treysti því sem menn úr öllum flokkum hafa sagt um að þeir séu reiðubúnir til að halda áfram umræðum um þessi mál. Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar er það undirstrikað að þeir sem að honum standa telja að málinu sé ekki lokið, að þetta kalli á áframhaldandi umræðu. Ég held engu að síður að það sé betra að klára málið núna, vitandi það að við þurfum að ganga lengra. Við þurfum að sníða af fleiri vankanta. Við þurfum líka, eins og hv. þm. Þór Saari hefur ítrekað bent á, að hugsa þessi mál heildstætt út frá því hvernig við viljum sjá fjármögnun stjórnmálastarfsemi. Ég er ekki viss um að við hv. þm. Þór Saari séum sammála í þeim efnum, það getur verið að við eigum samleið um ýmsa hluti en greini á um aðra. Almennt séð tel ég mikilvægt að stjórnmálaflokkar eigi möguleika á því að fjármagna starfsemi sína án þess að vera eingöngu upp á opinber framlög komnir. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég held að það sé eðlilegt að einstaklingar geti stutt stjórnmálastarfsemi og eftir atvikum stjórnmálamenn með fjárframlögum, hvort sem það er í formi félagsgjalda eða gjafa eða annars slíks. Ef við bara hugsun þetta opið sé ég ekkert því til fyrirstöðu t.d. að einhleypingur sem varið hefur miklum tíma ævi sinnar til starfs fyrir stjórnmálaflokk gefi við ævilok stjórnmálaflokknum t.d. húsið sitt eða eitthvað þess háttar, ég sé enga spillingu í því, ekki nokkra. Ég held að núverandi löggjöf hindri það. Það gæti því verið að við þyrftum að opna málin að einhverju leyti í þessa veru.

Ég er talsvert hugsi yfir styrkjum fyrirtækja til flokka. Þeir hafa viðgengist og eiga sér ákveðnar rætur, en það er auðvitað rétt sjónarmið að fyrirtæki sem lögaðilar, sem kennitölur, hafa ekki endilega skoðanir þannig að það eru tvær hliðar á því máli. Það eru auðvitað þeir sem stjórna fyrirtækjunum sem taka ákvörðun um að nota peninga fyrirtækisins til þess að styrkja stjórnmálastarfsemi. Og þá má spyrja á móti: Er ekki eðlilegra að það séu þá bara einstaklingarnir sem slíkir sem nota sína peninga til þess frekar en peninga fyrirtækisins? Það má alveg halda því fram. Þetta er umræða sem við getum farið langt með.

Eins og hv. þm. Þór Saari hefur margoft bent á eru farnar mjög mismunandi leiðir í löndunum í kringum okkur í þessum efnum. Það eru misstífar reglur um þessi efni, bæði varðandi upplýsingagjöf, varðandi fjárhæðir og annað þess háttar. Það er líka rétt sem bent hefur verið á að þessi mál hafa víða valdið vandræðum. Dæmin frá Bandaríkjunum eru mjög þekkt þar sem eru vissulega talsverðar skorður samkvæmt lögum við því að stjórnmálastarfsemi sé styrkt, frambjóðendur styrktir. Það eru stífar reglur um það. Menn fara bara fram hjá því með því að stofna svokölluð félög, aðgerðahópa eða eitthvað þess háttar eða nota hagsmunasamtök til að styrkja frambjóðendur með óbeinum hætti. Það eru þá slík samtök en ekki kosningasjóður frambjóðandans sem kaupa auglýsingarnar o.s.frv. Menn fara alls konar leiðir í þessu sambandi.

Í Bretlandi voru settar stífar reglur um framlög til stjórnmálaflokka. Þá fóru allir stóru flokkanna þá leið að hætta að taka við risaframlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum, þeir fengu bara lán frá þeim á mjög hagstæðum kjörum, gríðarlega hagstæðum kjörum, lán sem aldrei var gert ráð fyrir að yrðu borguð til baka. Þetta lagaði stöðuna í bókhaldinu hjá þeim en var auðvitað ekkert annað en sniðganga á þeim lagareglum sem höfðu verið settar.

Í Þýskalandi voru mjög stífar og eru, hygg ég, mjög stífar reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka. Þar var flokkur eins fyrrverandi kanslara staðinn að því að þiggja framlög sem einfaldlega gengu þannig fyrir sig að menn hittust á flugvelli í Sviss og skiptust á ferðatöskum fullum af seðlum.

Því miður er þetta svið uppfullt af vandamálum, hættum og viðfangsefnum sem er kannski erfitt að ná utan um með lögum og getur verið erfitt jafnvel þó að menn setji stífar reglur að útiloka vandamálin fullkomlega. Þetta er verðugt viðfangsefni. Við þurfum að halda þessari umræðu áfram. Ég held þó að með því að samþykkja þetta frumvarp séum við að lagfæra stöðuna eins og hún er. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við ættum að klára þetta og einhenda okkur síðan í að ræða framtíðarmál fjármögnunar stjórnmálaflokka og starfsemi þegar við höfum lokið þessum áfanga.