138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að taka þátt í þessari umræðu um fullyrðingar þess efnis að nauðsynlegt sé að ganga frá samningnum um Icesave. Slík fullyrðing er ekki í neinu samræmi við þær aðstæður sem við búum við í dag. Fjármálakreppan fælir fjárfesta frá landinu, jafnvel þótt í boði séu mjög hagstæðir fjárfestingarkostir. Við höfum skýrt dæmi um fælingarmátt fjármálakreppunnar.

Hér á landi eru innilokaðir 500–600 milljarðar í eigu erlendra fjárfesta. Þessir erlendu fjárfestar vilja út sem fyrst og leggja fé sitt inn á bankabækur eða kaupa ríkisskuldabréf til þriggja eða sex mánaða.

Frú forseti. Hagkerfið er fullt af erlendu fjármagni sem vill út. Icesave-samningur mun engu breyta þar um nema ýta undir útþrá erlendra fjárfesta. Aukin skuldsetning ríkissjóðs mun ekki auka fjárfestingargleði erlendra fjárfesta hér á landi.

Frú forseti. Okkur liggur ekkert á að semja um Icesave. Við höfum uppfyllt siðferðilega skyldu okkar gagnvart breskum og hollenskum innstæðueigendum. Við höfum tryggt forgang innstæðueigenda í þrotabú Landsbankans. Við höfum ekki krafið Breta um skaðabætur vegna hryðjuverkalaganna sem þeir settu til að vernda innstæðueigendur. Við gerum kröfu um að breskir og hollenskir innstæðueigendur sitji við sama borð og íslenskir sparifjáreigendur og fái innstæður sínar greiddar út í íslenskum krónum.

Frú forseti. Tíminn vinnur með okkur í Icesave-deilunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)