138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af áhyggjum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar af þingflokki sjálfstæðismanna en bara til að lina þjáningar hans og áhyggjur held ég að þær séu með öllu ástæðulausar. Hins vegar sagði hv. þingmaður að hann vonaðist til þess að afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins væri ekki bara um stundarsakir meðan þeir væru í stjórnarandstöðu — var þá væntanlega að vísa í að Sjálfstæðisflokkurinn væri í leið í ríkisstjórn sem ég hef ekki trú á að gerist alveg á næstunni því að ég held að límið í þessari ríkisstjórn — sem ég ætla ekki að ræða hér — hangi eitthvað áfram þó að það sé ekki gott.

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, og ég hélt að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefði tekið eftir því, að ég teldi það hafa verið mistök hvernig unnið var að stjórnarráðsbreytingunum 2007. Ég held því ekki fram að hver einasti þingmaður, 63 þingmenn, þurfi að vera nákvæmlega sammála um öll mál, en ég held að við hefðum náð betri árangri þá ef við hefðum lagt meiri tíma í undirbúninginn. Það hefði getað komið í veg fyrir núning, og orka hefði betur farið í annað en varð vegna þess að menn flýttu sér.

Svo ég hætti að tala um heilbrigðismálin, sem eru mér mjög hugleikin, og tali bara um atvinnumálin er ekkert útilokað, virðulegi forseti, að ef menn hefðu sest yfir málin 2007 — kannski var það samt þegar of seint — hefðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að t.d. viðskiptamálin væru nokkur hornreka í stjórnkerfinu. Það var of lítið eftirlitskerfi með viðskiptaráðuneytinu. Það er ekkert útilokað að ef við hefðum sest yfir það hefðum við komist að þeirri niðurstöðu.

Kannski hefði það ekki gerst. Ég man eftir að núverandi hæstv. fjármálaráðherra, þá og nú formaður Vinstri grænna, flutti ræðu þegar ríkisstjórnin var stofnuð og gerði sérstaklega grín að þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, sagði að hann væri hálfdrættingur því að hann væri með svo lítið og ómerkilegt ráðuneyti. Vinstri grænir töldu að þetta viðskiptaráðuneyti væri svo lítið og ómerkilegt að það væri hálfgert grín að vera ráðherra yfir því, það ætti frekar heima með einhverju öðru. Það var sjónarmiðið sem var því miður áberandi, menn áttuðu sig ekki á því að við sváfum á verðinum.

Ég heyri hins vegar að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill fá álit fleiri aðila og það er skynsamlegt. Það er hverjum manni ljóst sem hefur lesið þessi gögn og fylgst með umræðunum að þetta frumvarp er vanbúið, stjórnarliðar hafa gengið á bak sinna eigin orða. Hv. formaður allsherjarnefndar, Róbert Marshall, upplýsti í ræðu áðan að hann þekkti ekki til þess hvað væru heilbrigðisstéttir. Við höfum hins vegar tækifæri til að leiðrétta þetta ef við viljum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara yfir öll ráðuneytin, bæði stór og smá, og skoða sérstaklega hvað má gera, ekki bara í tengslum við þetta bankahrun heldur í tengslum við ríkisreksturinn almennt. Mér finnst að við ættum að vera búin að læra á undanförnum árum, t.d. af því hvernig fjárlög hafa verið framkvæmd, hvernig rekstri ríkisstofnana hefur verið háttað, að við þurfum að fara sérstaklega í það í tengslum við stjórnkerfisbreytingar. Ég vek athygli á því að í ráðuneytunum hefur alla jafna hver aðili ákveðna sérhæfingu varðandi ákveðna málaflokka. Við sameininguna eina mun ekkert breytast, starfsmenn fara með sín verkefni úr ráðuneyti A í ráðuneyti B. (Gripið fram í.) Ef ekkert annað gerist er það eina breytingin. Það eitt og sér er ekki nóg til að ná fram hagræðingu eða betri vinnubrögðum.

Við verðum að fara í grunninn á málinu. Því miður leggjum við ekki upp með það í þessu frumvarpi. Við erum ekki einu sinni að reyna að ræða það hér í þessum sal. Þau litlu orðaskipti sem við hv. þm. Ólafur Gunnarsson áttum um heilbrigðismálin eru bara dropi í hafið í þessu stóra verkefni því að þar má mjög margt betur fara. Ég (Forseti hringir.) hefði gaman af að heyra hv. þm. (Forseti hringir.) Ólaf Gunnarsson viðra skoðanir sínar hvað það varðar því að ég veit (Forseti hringir.) að hann hefur góðar skoðanir. (Forseti hringir.) Ég þekki störf hans á þeim vettvangi og þau eru um margt mjög góð.