138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[16:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er mjög spennandi. Eitt af því sem vekur mesta eftirtekt í þessu frumvarpi, ef að lögum verður, er auðvitað landsskipulagið. Ekki er allt fengið með því að samþykkja frumvarpið og gera það að lögum því að síðan á eftir að vinna úr því og hvernig tekst til um það verður áhugavert og skiptir miklu máli.

Ég hef skilið þetta þannig með landsskipulagið, t.d. hvað varðar frístundabyggð af því að hv. þingmaður talaði um hana, að þar verði ekki ákveðið hvar frístundabyggð eigi að vera, einmitt ekki, það verði ekki sett niður á kort, hvorki í smáum mælikvarða né stórum, hvar heppilegt sé að hafa frístundabyggð heldur verði í landsskipulaginu kveðið á um það hver eigi að vera skilyrði þess að sveitarfélag geti sett frístundabyggð niður í skipulagið sitt, hverjar séu forsendurnar fyrir því að það verði gert. Ég held að þeir sem að frístundabyggðamálum hafa hugað séu sammála um að það sé gríðarleg þörf á þessu því að frístundabyggð hefur einmitt aukist hér og tútnað út með ýmsum hætti sem er ekki endilega heppilegt fyrir þau sveitarfélög sem koma að málum eða þá sem eiga að vera í frístundabyggðinni.

Ég verð að viðurkenna að mín hugmynd um landsskipulag passar ekki alveg við það að landsskipulag virki eitthvað með í sóknaráætlun einstakra ríkisstjórna. Hins vegar hjálpar landsskipulag í einstökum þáttum þegar þau eru orðin nokkur og sveitarfélögin eru farin að vinna í samræmi við þetta landsskipulag sem þau hafa átt þátt í að móta. Þá hjálpar það öllum hlutum, þar á meðal atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu.