138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem ekki auga á að hv. þingmaður sýni með þessu fram á neina veikleika í sjálfu sér á þeirri málsmeðferð og þeirri aðferðafræði sem hér er upp lögð. (Gripið fram í.) Ég tel að svo sé ekki. Ég vísa í þau gögn sem fylgja tillögu fimmmenninganna til þingsályktunar til ákæru og þá lögfræðilegu ráðgjöf sem þar var stuðst við. Þar er svarað þeim spurningum sem snúa að þeirri stöðu að menn höfðu ekki stöðu sakbornings eða grunaðs manns og þeim steinum velt við. Við höfum farið rækilega yfir þetta í okkar þingflokki af því að við viljum vera viss, við viljum vera örugg. Ég segi bara fyrir mitt leyti, ég get ekki svarað fyrir aðra, mér leið betur hvað það snertir, ég róaðist, ég varð sannfærður um að menn hefðu farið rækilega yfir öll þessi álitamál, sem ég viðurkenni að eru fullgild og eðlilegt að komi upp. Þeim þarf að velta við og þeim þarf að svara. Ef niðurstaðan er sú að málsmeðferðin standist, það sé enginn réttur af mönnum tekinn, að þetta (Forseti hringir.) verði sanngjörn og hlutlæg málsmeðferð, þá er það í lagi. Það er mín afstaða til málsins og ég tel að svo sé.