138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sýn mín á atvinnumál sé frekar einföld. Ég tel að við Íslendingar höfum lifað á landinu frá því að við komum hingað níu hundruð og eitthvað og ég tel að það sé það sem við komum til með að gera áfram. Við eigum að nýta kosti landsins. Að sjálfsögðu berum við virðingu fyrir náttúrunni og ef hæstv. ráðherra hefur kynnt sér stefnu Sjálfstæðisflokksins þá er hæstv. ráðherra upplýst um það.

Síðan finnst mér mjög ankannalegt að hæstv. ráðherra, sem væntanlega telur sig vera femínista, tali hér á þann hátt að konur í Sjálfstæðisflokknum láti karlana í Sjálfstæðisflokknum ráða því hvaða skoðanir þær hafa. Ég frábið mér slíkan málflutning og hann er akkúrat ástæða þess að femínisminn hefur ekki á sér gott orð vegna þess að þetta er ekki málefnalegur málflutningur. Ég frábið mér þetta algjörlega, ég er bundin af minni eigin sannfæringu hér sem þingmaður og ég tek ákvarðanir mínar á grundvelli þeirra gagna sem ég kynni mér og á grundvelli minnar eigin sannfæringar.

Síðan langar mig að spyrja: (Forseti hringir.) Eru kvennasjónarmið meira ríkjandi í stjórnarfari núverandi ríkisstjórnar en fyrri ríkisstjórna?