138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér á Alþingi í fyrsta sinn í sögu þings og þjóðar tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum, þeim Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni fyrir brot framin af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi.

Ég vil taka það fram, frú forseti, að þingmannanefndin sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sem slík hvorki að leggja fram þingsályktunartillögu þá sem hér um ræðir né heldur hina tillöguna sem lögð hefur verið fram. Að þeirri tillögu sem við ræðum hér standa þingmennirnir háttvirtu Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. Hv. þingmenn Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir standa að annarri tillögu til þingsályktunar um ákæru á hendur Geir H. Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Tveir þingmenn í nefndinni Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sú sem hér stendur, og Unnur Brá Konráðsdóttir, komust að þeirri niðurstöðu að ákæra ekki.

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að fara í gegnum það hér hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu. Í umræðunni um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð hefur það verið áberandi fyrir leikmenn hvað hinir löglærðu segja og að þeir eru ekki á eitt sáttir. Til eru þeir sem segja að lögin um landsdóm og lögin um ráðherraábyrgð hafi runnið sitt skeið og uppfylli ekki þær kröfur sem almennar reglur sakamálaréttarfars og mannréttinda geri.

Lögin um landsdóm, virðulegur forseti, gera ráð fyrir að rannsókn fari fram eftir að Alþingi hefur tekið ákvörðun um að ákæra og fyrir hvað sé ákært. Það eitt og sér segja sumir löglærðir að sé í algerri andstöðu við þær grundvallarreglur sakamálaréttarfars að rannsaka skuli mál áður en ákvörðun um ákæru er tekin og sagt er að rannsókn og síðar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis komi ekki í stað sakamálarannsóknar.

Einnig er á það bent, virðulegur forseti, að önnur meginregla sakamálaréttarfars sé að rannsókn eigi að beinast að því að leiða hið sanna og rétta í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og til sektar. Með því fyrirkomulagi sem lögin um landsdóm geri ráð fyrir séu grundvallarréttindi sakaðra manna fyrir borð borin og lögin uppfylli ekki kröfur um réttláta málsmeðferð. Refsiheimildir séu óskýrar og vafi talinn leika á hvort þær uppfylli kröfur stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Frú forseti. Ég er ekki bær til að dæma um þetta. Hins vegar er það svo að Alþingi Íslendinga hefur hvorki breytt lögum um landsdóm né lögum um ráðherraábyrgð, því eru þau lög hér í fullu gildi og eftir þeim þarf að fara.

Róbert R. Spanó, sem er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur sagt, með leyfi forseta:

„Hér er um að ræða ákæru vegna pólitískra embættisbrota ráðherra. Þetta er mjög sérstakt fyrirbæri. Þegar stjórnarskráin var sett taldi Alþingi að ef ákæra ætti ráðherra fyrir brot í starfi sem framið væri í pólitísku umhverfi þyrfti ákæran að koma frá þinginu sjálfu.“

Annar löglærður, Kristín Edwald, hefur sagt, með leyfi forseta:

„Það á ekki að blanda pólitík inn í ákvörðun um hvort einstaklingar skuli ákærðir eða ekki. Slíkt samræmist ekki réttlátu réttarríki.“

Frú forseti. Er nema von að við leikmenn á sviði lögfræðinnar velkjumst í vafa um hvað sé rétt og hvað sé rangt og höfum þurft og þurfum að gaumgæfa hug okkar þegar við tökum ákvörðun í þessu máli? Á undanförnum vikum og mánuðum hef ég hlustað á marga löglærða og skilið á þann veg að grundvallaratriði í sakamálarétti sé að ekki skuli gefin út ákæra nema gögn málsins séu nægileg eða líkleg til sakfellis. Þegar ákærandi hefur fengið gögn í hendur um að rannsókn máls sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi.

Í þeim ákærutillögum sem hér liggja fyrir eru formsatriði eins og ófullkomin miðlun upplýsinga og skortur á umræðu á formlegum ríkisstjórnarfundum á árinu 2008 talin refsiverð. Horft er til fundar með formanni Seðlabanka Íslands í febrúar 2008 sem einhvers örlagadags í sögu þjóðarinnar, en þess ber að geta, frú forseti, að í maí þetta sama ár gaf þessi sami formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Seðlabanki Íslands út heilbrigðisvottorð fyrir bankana. Í maí 2008 gerði Seðlabanki Íslands það.

Við ræðum líka í þingsályktunartillögu hvort færa hefði átt Icesave og hvort nægjanlega hafi verið að gert. Það vil ég gjarnan segja hér, frú forseti, mikið lifandis ósköp vildi ég óska þess að þeir sem ákváðu að setja Icesave á laggirnar hefðu hunskast til þess að hafa það í dótturfyrirtækjum en ekki útibúum. En ég tel, frú forseti, að þeir hafi verið sér meðvitaðir um að hafa Icesave í þeim búningi vegna þess að þá gátu þeir flutt fjármagn á milli innan samstæðunnar og það var það sem máli skipti. Þeirra er ábyrgðin, frú forseti, þeirra er ábyrgðin öll.

Ég spurði líka á fundi þingmannanefndarinnar ágætan sérfræðing um það að ef við ákærðum ráðherra fyrir það að hafa ekki stuðlað að því að færa Icesave úr útibúi yfir í dótturfyrirtæki, hvort slíkt gæti ekki kallað skaðabótakröfu yfir íslenska ríkið. Ég fékk svar á næsta fundi, frú forseti, og svarið var þannig að almennt væri ákæra gefin út án þess að menn veltu fyrir sér hvort hún síðar meir hefði hugsanlega í för með sér skaðabótaábyrgð.

Frú forseti. Þetta sögðu sérfræðingarnir þá. Ég geri ráð fyrir að flestir sérfræðingar segi enn í dag að þetta sé almenn regla að skaðabótaábyrgð verði ekki og sé ekki tekin með þegar menn ákvarða um ákæru. Ekki ætla ég hér og nú að fullyrða að svo fari að einhver fari í skaðabótamál við ríkið vegna þess að hugsanlega verði ráðherrar sem hér eru ákærðir dregnir til ábyrgðar og refsingar, að einhver sjái sér hag í því að fara í skaðabótamál við ríkið.

Frú forseti. Það eru mörg „ef“, „hefði“ og „mundi“ í þessari umræðu allri. Þess vegna er hún öllum erfið og engum auðveld, hvorki þeim sem standa að þessari þingsályktunartillögu né heldur þeim hv. þm. Magnúsi Orra Schram og Oddnýju G. Harðardóttur, sem standa að annarri þingsályktunartillögu, þetta er fólki ekki auðvelt. Menn hafa spurt: Varstu sömu skoðunar frá upphafi? Ef ég man rétt sögðu hv. þingmenn í þingmannanefndinni að það væri vont að vita ekki hvað ég væri að hugsa vegna þess að stundum spyrði ég þannig spurninga að það virtist vera sem ég félli með þeim sem vildu ákæra en svo sveiflaðist ég aftur til hins sem ekki vildi. Ég gaf seint upp hug minn en þegar hann var klár var honum ekki haggað, svo einfalt var það, frú forseti.

Menn hafa talað hér og rætt um að orsakasamhengi þurfi að vera fyrir hendi fyrir því sem gert er eða ekki gert og þess efnahagsáfalls sem hér varð en aðrir eru því ósammála.

Í 7. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis á bls. 288 er m.a. verið að velta fyrir sér vanræksluhlutverkinu og þar segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi telur nefndin ástæðu til að undirstrika að það getur að hennar mati ekki verið skilyrði fyrir ályktun um að maður hafi sýnt af sér vanrækslu, t.d. við opinbert eftirlit með fjármálastarfseminni eða við stefnumörkun á því sviði, að sýnt þyki að aðgerðir þær eða ráðstafanir sem nefndin telur að honum hafi borið að hafa frumkvæði að hefðu einar og sér getað stuðlað að því að koma að öllu leyti í veg fyrir fall bankanna og tjón sem af því leiddi fyrir íslensku þjóðina. Hvorki rannsóknarnefndin né aðrir aðilar geta fullyrt um að beint orsakasamhengi sé á milli vanrækslu um slík atriði og þess fjármálaáfalls sem hér varð haustið 2008 né slegið því föstu hver innbyrðis þýðing hinna samverkandi þátta sem leiddu til þess hafi verið.“

Ég sagði fyrr, virðulegur forseti, að í þeim ákærutillögum sem fyrir liggja væru formsatriði eins og ófullkomin miðlun upplýsinga og skortur á umræðu á formlegum ríkisstjórnarfundum á árinu 2008 talin refsiverð. Það er líka talið refsivert að hafa ekki stuðlað að því að bankarnir drægju úr efnahag sínum og að einhver þeirra flytti höfuðstöðvar sínar úr landi. Það er einnig ákært fyrir það að hafa ekki, eins og ég sagði áðan, stuðlað að því með virkum hætti að Landsbankinn færði Icesave-reikningana úr útibúum yfir í dótturfélög. Allt er þetta okkur ljóst. En er þetta refsivert samkvæmt lögum, frú forseti, að hafa ekki lokið við þessi verkefni?

Frú forseti. Ég tel að í ákærutillögunum sem fyrir liggja hafi enginn sýnt mér fram á það að fullnægjandi rök sýni að beint orsakasamband sé á milli þessara formgalla í stjórnsýslunni og hruns bankanna. Þar sem ég er ekki löglærð verð ég að vera sannfærð um það sjálf að það sem ekki var gert eða það sem var gert hafi stuðlað að eða leitt til hrunsins. Og ég er það ekki, frú forseti. En matið liggur ekki bara hjá mér, matið er hjá ákærandanum sem í þessu tilviki er Alþingi Íslendinga. Hvað varðar þessar tvær tillögur til þingsályktunar sem fyrir liggja um málshöfðun á hendur fyrrverandi ráðherrum fyrir brot framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi þá fer Alþingi með ákæruvaldið. Þingmenn verða nú, eins og fram hefur komið, að gegna stjórnskipulegri skyldu sinni og leggja efnislegt mat á fyrirliggjandi gögn og málsatvik og fylgja sannfæringu sinni. Virðulegur forseti. Það hef ég gert. Ég hef lagt eins og mér frekast er kostur efnislegt mat á málsatvik og þau gögn sem fyrir liggja og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að saknæmisskilyrði séu ekki fyrir hendi. Sú niðurstaða þýðir ekki að skila auðu. Hún er byggð á þeim gögnum sem ég hef lesið, hún er byggð á efnislegu mati mínu á þeim málsatvikum sem ég þekki.

Frú forseti. Þegar ég stend frammi fyrir erfiðum aðstæðum, eins og þingmannanefndin hefur þurft að gera og þeir sem nú sitja og bíða eftir því hver niðurstaða Alþingis verður eru í og sem Alþingi stendur nú frammi fyrir, að taka ákvörðun í þessu máli, þá horfi ég oftar en ekki á það sem stendur mér næst og er mér kærast. Mér hefur undanfarið verið hugsað til orða sem dóttursonur minn, sannur og einlægur lítill drengur, lét einu sinni falla þegar hann sagði: Amma mín, ég elska þig eins og heimurinn er stór.

Lífið er einfalt og fallegt hjá litlum dreng. Lífið er ekki einfalt og fallegt hjá tugþúsundum Íslendinga sem í dag standa frammi fyrir fjárhagslegu hruni, sálrænum áföllum og fleiru vegna þess númer eitt að óábyrgir, áhættusæknir bankamenn stefndu okkur í voða. Þeirra er ábyrgðin fyrst og síðast og hún verður aldrei frá þeim tekin. Aldrei. Við getum hins vegar sagt, eins og margir hafa gert og ég gerði sjálf í ræðu minni hér áður um skýrsluna sem þingmannanefndin hefur lagt fram, að rætur vandans liggja í einkavæðingu bankanna og í kjölfar hennar komust fáir einstaklingar að í öllu fjármálakerfinu eins og það lagði sig. Það eru stærstu mistökin.

Ég ætla heldur ekki, frú forseti, að undanskilja ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þessar ríkisstjórnir bera allar mikla ábyrgð, en þær bera pólitíska ábyrgð, og það er ekki mín trú og ég hef ekki fundið efnislega eitt eða neitt sem réttlæti að það sem fólk gerði eða gerði ekki sé refsivert. Þess vegna hef ég tekið ákvörðun mína og hún er tekin af djúpri og einlægri sannfæringu. Ég segi nei við ákæru á hendur ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar, þeim Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni fyrir brot framin af ásetningi og/eða stórkostlegu hirðuleysi sem getur leitt til refsingar, hver svo sem hún kann að vera. Ég byggi þessa ákvörðun mína á því einu að ég hef hvergi fundið að saknæmisskilyrði séu uppfyllt.