138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:36]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um mjög vandasamt mál að ræða sem ég hef lýst þeirri skoðun minni á — kannski ekki í þingsal, ég hef í rauninni forðast að fjalla um þetta mál í þingsalnum þangað til á síðari stigum — að mér finnist eðlilegt að þetta mál komi til umfjöllunar í allsherjarnefnd. (Gripið fram í: Af hverju?) Þar með er ekki verið að útiloka að þingmannanefndin taki málið til umfjöllunar að nýju. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að komast að því í þingsalnum að tillögurnar séu lagðar þannig fram að sú hin fyrri núlli hina síðari út, þ.e. hún verði þá ekki til umfjöllunar.

Ég óska eftir því við hæstv. forseta að þetta mál fari til beggja nefnda. Í því felst engin vantraustsyfirlýsing á hendur þingmannanefndinni sem að mínu mati hefur unnið sitt verk mjög vel og með mjög vönduðum hætti. Ég ber mikla virðingu fyrir vinnu nefndarinnar en ég tel eðlilegt til að tryggja vandaða meðferð þessa máls í þinginu að málið komi jafnframt til umfjöllunar í allsherjarnefnd.