138. löggjafarþing — 165. fundur,  22. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eitt er nokkuð víst og það er að vísa verður hverju máli til einnar þingnefndar og ein þingnefnd verður að hafa forræði á vinnslu máls. Það geta að sjálfsögðu komið upp álitamál þegar menn standa frammi fyrir því að ákveða í byrjun til hvaða þingnefndar mál gangi. En ég þekki þess ekki dæmi, svo ég muni úr þingsögunni, að mál sem búið er að vísa í nefnd eða mál sem nefnd hefur þegar unnið með, að upp komi hugmyndir um að vísa því á síðari stigum í aðra nefnd og láta aðra nefnd fá forræði á vinnu þess. Ég held að menn ættu að hugleiða út í hvaða ógöngum slíkt getur lent.

Þegar þingmannanefndin er búin að fjalla um málið og þó að henni hafi mistekist að ná samstöðu um það eru það ekki rök fyrir því að senda eigi það í einhverja aðra nefnd. Eða sæju menn það fyrir sér að þegar fjárlaganefnd hefur heilt haust unnið að fjárlagafrumvarpi og skilað meirihluta- og minnihlutaáliti við 2. umr. noti menn þau rök að til þess að tryggja vönduð vinnubrögð og reyna að ná samstöðu (Forseti hringir.) vísi menn fjárlagafrumvarpinu í einhverja aðra nefnd milli 2. og 3. umr. o.s.frv.? (Forseti hringir.) Hér mundu menn komast í miklar ógöngur. Ég fagna sérstaklega (Forseti hringir.) þeirri niðurstöðu sem varð hér í atkvæðagreiðslunni þingsins sjálfs vegna. (Gripið fram í.)