138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

aðgangur að gögnum þingmannanefndarinnar.

[10:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við komum saman til þingfundar til að halda áfram umræðum um skýrslu þingmannanefndarinnar og síðan í framhaldinu þingsályktunartillögur um ákærur gegn fyrrverandi ráðherrum. Ég verð að koma upp og harma það alveg sérstaklega að ekki hafi verið tryggður óheftur aðgangur að þeim gögnum sem nefndin var að vinna með. Það hefur komið fram í umræðunni að nefndin hafi fengið ýmis af þeim gögnum í trúnaði og vel má vera að það hafi átt við um einhver sérstök álit sem nefndin fékk. En uppistaðan af þeim gögnum sem þingmenn fengu aðgang að í trúnaði eru ekki slík gögn þannig að það er algerlega óafsakanlegt og fráleitt að gögnin séu ekki opinber til að breikka umræðuna um þessi mikilvægu mál.

Ég verð jafnframt að gera athugasemd við það að forseti skuli ekki hafa hagað þingstörfum á þann veg að hér gæfist í það minnsta eins til tveggja klukkutíma svigrúm til að ræða önnur mál þá þingdaga sem eru fram undan í vikunni. Ég lét þess getið í síðustu viku að það væru fjölmörg mál, og tiltók þau, sem ástæða væri til að gefa tíma fyrir í upphafi þessa þingfundar eða fyrir þingfundinn á morgun eða eftir atvikum á miðvikudaginn, verði þingfundur þá, en það virðist ekki ætla að verða af því og það verð ég að harma.