138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir ræðu sína sem var ágætisinnlegg í umræðuna hér. Ég tek eftir því að hv. þingmaður er flutningsmaður að breytingartillögu er varðar einkavæðinguna. Ég hef áður lýst skoðun minni á því að ég telji að það skili ekki miklu að fara í frekari rannsókn á því máli sem hefur verið rannsakað í bak og fyrir. Gott og vel. Hér hafa fulltrúar flestallra flokka lýst því yfir að þeir sjái fyrir sér að þeir gætu náð samstöðu um að fara í einhverja slíka rannsókn sem væri þá ítarlega kortlögð. Ég get ekki séð að tillaga hv. þingmanns uppfylli öll þau atriði sem þingmenn hafa lýst hér í umræðu um þessa skýrslu að þurfi að rannsaka. Ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með að það séu komnar fram tvær ólíkar tillögur um rannsókn á einkavæðingunni í stað þess að fólk hefði sest niður, þingmenn úr öllum flokkum, í anda þeirra vinnubragða sem þingmannanefndin hefur viðhaft og reynt að koma með sameiginlega tillögu.

Ég vil nota tækifærið og hvetja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem er ein valdamesta konan í þinginu verandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, til að leiða þá vinnu að menn setjist niður og reyni að koma þessu máli í þann farveg að það endi ekki þannig að þegar sú rannsókn sem hv. þingmaður leggur hér til og fleiri er um garð gengin komi menn hér og segi: Þetta er ekki nóg, nú þarf að rannsaka enn frekar. Ég vona og vil sjá það að þingmenn hafi þroska til að viðhafa þau vinnubrögð að setjast saman yfir þessar tillögur og koma svo út með einhverja afurð sem allir flokkar geti væntanlega stutt.