138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get algerlega tekið undir það með hv. þingmanni, sem flutti ágæta ræðu um húsnæðismál, að nauðsynlegt sé að rannsaka Íbúðalánasjóð og starfsemi hans, kannski sérstaklega það sem hann kom inn á um að kaupa skuldabréf af sparisjóðum og jafnvel bönkum sem voru með veð í fasteignum en fjármagnið hafði verið notað án tillits til félagslegra sjónarmiða Íbúðalánasjóðs. Fé með ríkisábyrgð fór sem sagt frá Íbúðalánasjóði til kaupa á bílum og sumarbústöðum og öðrum hlutum sem ekki var hans hlutverk.

Hv. þingmaður sagði að skattalækkanirnar hafi verið þensluhvetjandi. Þá tek ég til grein frá hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, frá 10. mars 2003, þar sem hún segir að skattalækkanir sjálfstæðismanna séu skattahækkanir vegna þess að þær hafi komið fram í auknum tekjum ríkissjóðs af sköttum. Þetta er það sem menn eru alltaf að blanda saman. Það eru tekjur ríkissjóðs af sköttum og hins vegar skattarnir, hvernig þeir virka á almenning.

Vissulega voru skattarnir lækkaðir stórkostlega í tíð Sjálfstæðisflokksins en það kom þannig fram að skattstofninn stækkaði þvílíkt að ríkissjóður hafði margfalt meiri tekjur eða umtalsvert meiri tekjur. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á ráðstefnu í síðustu viku að allar skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar núna væru skattalækkanir vegna þess að tekjurnar minnkuðu. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður, sem er hagfræðingur, átti sig á því að það er munur á skatttekjum ríkissjóðs, sem stórjukust á þessum tíma, og skattprósentunni sem lækkaði.