138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt atriði sem vekur athygli mína, bæði í áliti meiri hluta þingmannanefndarinnar og eins í málflutningi hv. þm. Atla Gíslasonar, og það er að ólíkt því sem ég tel að venja sé fyrir í sambandi við skýringar á lagaákvæðum þá finnst mér þingmannanefndin eða meiri hluti hennar ganga út frá því að það beri að skýra réttindaákvæðið þröngt og refsiákvæðið rúmt. Þetta gengur þvert gegn því sem er venja í þessu vegna þess að það er viðurkennd grundvallarregla að refsiákvæði ber að skýra þröngt og réttindaákvæði frekar rúmt. Það hefði ég haldið að væri það viðhorf og viðmið sem menn ættu að hafa í þessu sambandi.

Ef við lítum á réttindaákvæðin virðist meiri hlutinn ganga út frá því að það sem ekki er beinlínis bannað sé heimilt og ef réttindi eru ekki tryggð með berum orðum geti rannsóknaraðili eða ákæruvald eða sá sem fer með ákvörðun um rannsókn eða (Forseti hringir.) ákæru gert eiginlega það sem hann vill.