138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmannanefndin setti sér verklagsreglur. Líklega var það í mars, ég verð leiðrétt ef það er rangt hjá mér. Lögin lágu fyrir í desember sl. Þingmannanefndin, að því er ég fæ skilið af umræðum hér, eyddi drjúgum tíma í að ræða verklag sitt og verkefnið fram undan á meðan beðið var skýrslunnar frá rannsóknarnefndinni og það hefur ekkert með afturvirkar ákvarðanir að gera að sækja heimild til þingsins, hafi þingmannanefndin ekki talið sig hafa hana, til að vinna vinnu sem átti eftir að vinnast í nefndinni. Það er engin afturvirkni í því, hæstv. forseti, ekki nokkur. Það snýst um verklag, það snýst um formfestu, það snýst um það að þingmannanefndin hafi gert sér fulla grein fyrir því hvert starfið gæti leitt hana.