138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er fullkomlega að missa sig í þessari umræðu og segir að ég vilji bara ákæra og kanna hvað gerist. Hann hlustaði þá ekki á ræðu mína áðan sem hann hefði betur gert. (GÞÞ: Ég hlustaði á orð þín …) Hann hefði betur gert það.

Ég sagði í ræðu minni að hættan á pólitískri misbeitingu — og var þar m.a. að vitna í það sem hv. þm Bjarni Benediktsson sagði um það mál í grein sinni — væri ekki fyrir hendi ef málsmeðferð væri vönduð og byggð á gaumgæfilegri og óhlutdrægri rannsókn eins og hér hefur farið fram. Ég er ekki að halda því fram að menn eigi að kasta fram ákærum og sjá hvað gerist. En hér hefur farið fram ítarleg rannsókn og það er óumdeilt að hér varð efnahagshrun, nema hv. þingmaður, hrunráðherrann með landsfundarsamþykkt á bakinu um að hann ætti að segja af sér, hafi ekki orðið var við það eða sé í fullkominni afneitun enn. (Gripið fram í.)