139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

mótmæli á Austurvelli og umræða um skuldavanda heimilanna.

[14:02]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs undir þessum lið á nákvæmlega sama augnabliki og hv. þm. Ólöf Nordal til að koma fram með sömu ósk. Ég held að í þeim mótmælum sem við urðum vitni að í gærkvöldi felist mikil tíðindi. Vissulega voru skilaboðin sem fólkið bar fram misjöfn. Engu að síður held ég að full ástæða sé til að þau verði rædd á þinginu strax í dag og sérstakur tími tekinn frá til þess, ekki verði beðið fram eftir viku til að þingmenn geti rætt sín á milli hvaða skilning þeir leggja í mótmælin og hvernig eigi að bregðast við þeim á vettvangi ríkisstjórnarinnar, þannig að ég tek undir það með hv. þm. Ólöfu Nordal að fundinn verði staður fyrir það í dagskrá þingsins að ræða þessi mál og miklu tíðindi sérstaklega.