139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að snúa bökum saman og virða skoðanir og hugmyndir hvers annars en það er nú ekki reyndin. Við lögðum fram margar góðar tillögur í fjárlagagerðinni síðasta haust en það var ekki hlustað á þær og þær voru ekki einu sinni virtar viðlits. Þó að það hafi ekki verið hv. þingmaður sjálfur, sem tók mjög vel í að ræða þær tillögur í fjárlaganefnd, heldur forustumennirnir sem eru þá akkúrat það sem hann var að benda á, að menn þurfi að veita stjórnvöldum og oddvitum stjórnmálaflokkanna aðhald.

Mig langar að ítreka fyrri spurninguna um það hvernig hann hyggst beita sér í því að það verði gert eitthvað meira í atvinnuuppbyggingunni. Seinni spurning mín fjallaði um það, af því að hv. þingmaður talaði um hagræðingu, að á meðan skera á niður um 40% í heilsugæslunni á Húsavík er í raun og veru verið að skera niður 4% og 3% í sameinuðu ráðuneyti hjá mannréttindaráðherranum og hæstv. ráðherra er með tvo aðstoðarmenn. Er þetta stefnumörkun sem hv. þingmaður mun styðja við lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins ef þessu verður ekki breytt?