139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hingað til staðið við orð mín á Alþingi og greitt atkvæði eftir sannfæringu minni en ekki flokkslínum eða öðru slíku og það mun ég gera í þessu efni. Ég mun reyna að tala uppbyggjandi í umræðu um þetta fjárlagafrumvarp. Ég ætla hins vegar ekki að vera svo billegur, frú forseti, að rífa allt niður í þessu frumvarpi án þess að koma með tillögur á móti vegna þess að við þurfum að skera niður. Við þurfum að hagræða gríðarlega og þá getur maður ekki einungis komið með gagnrýni heldur verður maður að koma með einhverjar uppbyggilegar tillögur á móti vegna þess að meginvandinn sem við okkur blasir er að við þurfum að lækka skuldir ríkissjóðs og við getum ekki greitt 50 milljarða kr. á ári í vaxtagjöld. Ég vil sjá að sanngirni sé beitt í þessum niðurskurði og mér finnst það ekki sanngjarnt þegar við erum að tala annars vegar um dreifðar byggðir og hins vegar þéttar byggðir að við skerum niður 70% í sjúkrahúsþjónustu úti á landi en minnst þar sem fólkið er næst hvert öðru og á auðveldast með að fara á sjúkrahús.