139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðu hans og ætla að bregðast örlítið við því sem hann fjallaði um varðandi málefni sveitarfélaga og hvernig fjárlagafrumvarpið snertir sveitarfélögin að hans mati.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að vegna aðhaldsaðgerða verði í fyrsta lagi lagt til að 1,2 milljarðar falli niður af framlagi sem veitt var í fjárlögum 2010 til að koma til móts við hækkun á launakostnaði sveitarfélaga vegna tryggingagjalds. Það var aðgerð sem var ákveðin vegna fjárlaga ársins í ár. Það var alla tíð vitað að það væri tímabundin aðgerð vegna yfirstandandi árs. Um það hafa sveitarfélögin alla tíð vitað og í því felst ekkert óréttlæti eða slæm framkoma af hálfu ríkisins gagnvart þeim í þessu fjárlagafrumvarpi.

Jafnframt er rétt að lagt er til að 1 milljarður falli niður af framlagi sem veitt var í fjárlögum 2009 til að styðja sveitarfélögin. Sömuleiðis er rétt að gert er ráð fyrir hækkun upp á 556 millj. kr. af óbreyttu framlagi vegna viðbótarkostnaðar í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um húsaleigubætur, þannig að öllu sé til haga haldið. Ég vil að það sé gott samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga um þessi mál sem önnur og ég hef þegar lagt á ráðin í samstarfi við fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um að eiga slíkt samstarf við frekari vinnslu fjárlagafrumvarpsins, af hálfu fjárlaganefndar en ekki síður af hálfu samgöngunefndar sem hefur með málefni sveitarfélaga að gera, fjármál og önnur mál. Ég vonast til að við eigum eftir að eiga gott samstarf í haust og þá sérstaklega (Forseti hringir.) þegar við fáum væntanlegt frumvarp um breytingar á lögum um sveitarstjórnir inn á þing.