139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli vera reiðubúinn til að ræða þessi mál ef hægt er að sýna fram á að þetta sé efnahagslega framkvæmanlegt, en það var einmitt gert fyrir hátt í tveimur árum síðan þegar þetta var allt útlistað með hætti sem síðan hefur sannað gildi sitt. Það hefur komið á daginn eitt atriðið af öðru sem bent var á, til að mynda hversu miklar afskriftir voru færðar þegar lán voru flutt milli gömlu bankanna og þeirra nýju. Þessar afskriftir hafa ekki verið látnar ganga áfram til þeirra sem skulda heldur notaðar til að ná fram alveg ótrúlega miklum hagnaði hinna nýju banka eftir hrunið svo leiðirnar eru til staðar. Vandamálið hefur hins vegar verið það að ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin til að skoða þær. Ráðherrar tóku sér t.d. ekki langan tíma til að skoða tillögur um almenna skuldaleiðréttingu þegar þær komu frá Framsóknarflokki í febrúar í fyrra en voru tilbúnir strax daginn eftir til að fordæma þær tillögur. Er hæstv. ráðherra sem sé tilbúinn til að skoða málið upp á nýtt?