139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

afstaða dómsmálaráðherra til fjárlagafrumvarpsins.

[14:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Á fimmtudaginn var fór fram borgarafundur í Stapa í Reykjanesbæ þar sem fólki þar, eins og reyndar alls staðar um landið, var mikið niðri fyrir vegna atvinnuástandsins og niðurskurðar í velferðarmálum og vegna annarra þátta. Í kjölfar þessa borgarafundar var það haft eftir hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Ögmundi Jónassyni, að hann væri á móti byggingu álvers í Helguvík, atvinnuskapandi verkefnis sem íbúar þarna á svæðinu kalla mjög hátt eftir.

Í ljósi þeirra yfirlýsinga verður að líta til þess að meginforsenda fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar er sú hagvaxtarspá og hagvaxtarforsendur sem þar byggjast. Þær hagvaxtarforsendur byggjast á því að farið verði í framkvæmdir við byggingu álvers í Helguvík, framkvæmdir sem hæstv. ráðherra styður ekki. Þá liggur beint við að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann styðji fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.