139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

afstaða dómsmálaráðherra til fjárlagafrumvarpsins.

[14:36]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skil ekki alveg samhengið í spurningu hv. þingmanns og það væri óskandi að hann skýrði mál sitt nánar hér á eftir. Hitt er rétt eftir mér haft að ég tel að menn hafi farið fram úr sér með framkvæmdir í tengslum við Helguvík og álver þar einfaldlega vegna þess að til þess að geta rekið álver þarf að hafa orku til að knýja álverið og á henni stendur eins og við þekkjum þannig að endar hafa ekki verið hnýttir saman.

Það er annað og meira sem ég hef gert. Ég hef gagnrýnt þá sem hafa komið fram í umræðunni um atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum vegna þess að þeir hafa keyrt þessa umræðu inn í ákveðið öngstræti: Annaðhvort ál eða ekkert, annaðhvort ECA eða ekkert. Þetta er umræðan sem fólki er boðið upp á. Ég held því fram að samfélaginu sé haldið í gíslingu af hagsmunaaðilum sem horfa fyrst og fremst á eigin hagsmuni. Við þurfum að ná þessari umræðu á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ út úr þessu öngstræti, menn þurfa að opna hugann og horfa til annarra átta einnig. Við eigum ekki að láta nokkra sjálfskipaða fulltrúa stýra umræðunni inn í þennan farveg sem ég heyri að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tekur undir.