139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. síðasti ræðumaður spurði utanríkisráðherra hvort þetta væri sagan um Davíð og Golíat. Svo er. Eins og við vitum endar sú saga alltaf á einn veg, á þann veg að Davíð sigrar Golíat. Og það er saga þeirra fiskveiðiátaka sem við höfum tekið þátt í í gegnum tíðina. Við höfum aldrei látið kúga okkur eða hóta okkur til uppgjafar í þeim efnum. (Gripið fram í.) Við höfum staðið á okkar rétti hvað sem yfir hefur dunið.

Ég tek það alveg skýrt fram að ég er algerlega sammála öllum þeim rökum sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson flutti fram áðan. Rökin eru alveg skýr gagnvart okkar málstað og ég vil líka segja að ég tel að það hafi bæði verið óskynsamlegt og óviturlegt af þeim forustumönnum Evrópusambandsins sem skrifuðu þetta bréf fyrir helgi. Það var ekki til þess fallið að greiða fyrir lausn á þessu máli.

Ég er sammála hv. frummælanda og hæstv. sjávarútvegsráðherra um að Íslendingar þurfa að ná sanngjörnum samningi. Hann byggir á þeim rökum að makríllinn er ekki tímabundinn túristi í efnahagslögsögunni. Það hefur komið í ljós við rannsóknir sem hæstv. ráðherra hefur látið framkvæma að makríllinn hefur orðið sér úti um íslenskt vegabréf, hann er farinn að hrygna í kringum allt landið. Hann er að því leytinu til líka orðinn íslenskur þegn og hann kemur ekki hingað ókeypis í tímabundið ferðalag. Hann tekur til sín mikla fæðu og átu innan efnahagslögsögu okkar. Það eyðist sem af er tekið, það sem makríllinn étur éta ekki aðrar tegundir. Það sjáum við nú þegar í dvínandi átu. Við sjáum það strax í sjófuglum og hugsanlega öðrum tegundum þannig að rökin eru fullkomlega með því að Íslendingar eigi að fá sanngjarna hlutdeild í þessum stofni.

Ég sagði í upphafi máls míns að Íslendingar kynnu á fiskveiðideilur. Okkur var haldið utan við samningaborðið. (Forseti hringir.) Við olnbogum okkur inn að því og við eigum rétt á sanngjörnum samningi sem tekur að sjálfsögðu til þess að við fáum að veiða okkar hlutdeild utan íslensku efnahagslögsögunnar ef með þarf.