139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu um makrílmálið sem lýsir hversu þétt og vel við þingmenn stöndum saman í að sækja og verja réttindi okkar og skyldur í tengslum við fiskveiðar og stjórn þeirra.

Ég legg áherslu á að stjórn veiðanna hefur tekist vel. Það var vikið að því að veiðarnar á síðastliðnum árum hefðu verið ólympískar og ekki hægt að stýra hvað var unnið úr makrílnum, það er hárrétt. Hins vegar hefur þessi aðferð viðgengist þegar verið er að vinna sér inn veiðirétt.

Það var reynt að ná samkomulagi við útgerðirnar á sl. ári um að ákveðinn hluti aflans færi til manneldisvinnslu en það gekk ekki. Hins vegar fékkst á þessu ári lagaheimild fyrir ráðherra til að hafa afskipti af og krefjast fullvinnslu og náðist — án þess að henni væri beitt — gott samkomulag við útgerðirnar. Það var einnig tekin upp nýbreytni við stjórn fiskveiða varðandi makrílinn þó að það gilti bara fyrir þetta ár vegna þess að þetta var óumsaminn fiskur og veiðar. Skipt var á milli útgerðarflokka; litlir bátar, millistórir bátar og stærri bátar áttu sinn rétt og sinn möguleika. Jafnframt var gert samkomulag um að eins hátt hlutfall og kostur var, það var reyndar tiltekið, skyldi fara til manneldisvinnslu. Þetta tókst allt mjög vel. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég vildi rekja þetta vegna þess að við erum ábyrg fiskveiðiþjóð og viljum vera það í öllum þáttum sem lúta þar að, einnig í samningunum sem fara í hönd. (Forseti hringir.) Umræður verða sjálfsagt eitthvað áfram varðandi makrílveiðarnar en þar stöndum við saman á okkar rétti og skyldum.