139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á þessa meinlegu endurtekningu sem þarna er. En ef við komum okkur að efni greinarinnar sem slíkrar þá snýst hún að mestu leyti um að það sé samþætt inn í alla vinnu, áætlanagerð og greiningu, sem t.d. á sér stað á vegum Byggðastofnunar og annarra aðila sem að þessum málum koma, að skoðuð séu áhrifin á kynin og fundnar leiðir til að útrýma kynbundnum launamun.

Það kemur líka fram að ábyrgðin á framkvæmdinni á þessu verkefni sé í höndum félagsmálaráðuneytisins, þeir sjá um þennan hluta verkefnisins, og hafa þar með sér Jafnréttisstofu, Hagstofuna, háskóla og rannsóknastofnanir auk Byggðastofnunar sem gerir þessa greiningu fyrir landið. Það er von mín að hv. þingmaður eigi eftir að sjá, og við öll, árangur af þessari vinnu en það skiptir máli að samþætta þetta inn í alla áætlanagerð, líka í byggðamálum.