139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

(Gripið fram í.) Frú forseti. Í fyrsta lagi, bara vegna umræðunnar sem orðið hefur um fjárlagafrumvarpið, ítreka ég það sem ég hef sagt: Það vita allir að fjárlagafrumvarp er afgreitt í ríkisstjórn og lagt fram á vegum ríkisstjórnar og þarf að njóta til þess stuðnings í þingflokkum stjórnarinnar. Um leið sagði ég það, eins og hv. þingmaður heyrði, og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur tekið undir það með mér, að það hefur áreiðanlega aldrei gerst að fjárlagafrumvarp hafi farið óbreytt í gegnum þingið. Til þess er vinna fjárlaganefndar, það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið. Að sjálfsögðu verður farið yfir fjárlagafrumvarpið í samráði við hagsmunaaðila og allar þær athugasemdir sem hafa komið fram. Þær eru mjög skiljanlegar.

Við Íslendingar stöndum í mjög erfiðum sporum við það að taka á okkar efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Það er komið til vegna efnahagshrunsins sem hér varð haustið 2008 og þetta eru afleiðingar af því. Við eigum öll að taka saman höndum um að reyna að leysa þau vandamál. Ég harma það að menn eru farnir að gíra sig upp í einhvern hávaða og læti um að það sem hinir leggja til sé ómögulegt og svo sé ekki hlustað á hitt frá hinum.

Við þurfum öll að hlusta hvert á annað og þess vegna fagna ég því að Sjálfstæðisflokkurinn mætti á samráðsfund með ríkisstjórninni í morgun sem hann hefur ekki gert undanfarið. Ég tel mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum og allir hlusti hver á annan. Vissulega getur okkur greint á pólitískt um hvaða leiðir á að fara og þá tökumst við á um þær. Það er ekkert óeðlilegt við það, það er hluti af lýðræðinu. En við eigum að umgangast þessi mál af varfærni og skilningi hvert gagnvart öðru. Það er það sem þjóðin þarf á að halda og það er það sem þjóðin vill heyra úr þessum sal. (VigH: Ekki …)