139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum, og svo sem ekki í fyrsta sinn, stöðu atvinnumála á Suðurnesjum. Reyndar er það svo að mér finnst ég halda sömu ræðuna aftur og aftur og ítrekað og þegar ég fór í gegnum gögnin mín við undirbúning þessarar umræðu sá ég að ég hafði oft haldið nánast sömu ræðuna og ég ætla að boða það hér að ég mun halda hana þar til eitthvað breytist.

Atvinnumál á Suðurnesjum eru ekki vandamál þess svæðis eins og sér vegna þess að eins og kom fram á fjölmennum borgarafundi fyrir réttri viku í Stapanum hjá forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni, sem var þar fundarstjóri, er hægt að líta á Suðurnesin sem ákveðið tilraunaverkefni í þessu. Það sem er að gerast þar núna mun gerast annars staðar á landinu ef ekkert verður að gert. Það eigum við að hafa í huga.

Vandamálið þar er ekki bara að langtímaatvinnuleysi hafi látið á sér kræla heldur eru vonir fólks að dvína. Á svæðinu bíða fjöldamörg verkefni í pípunum og er átakanlega sorglegt að sjá hversu lítið það er í raun sem tefur. Markmiðið með þeim fundi sem ég nefndi áðan, Samtök atvinnurekenda á Suðurnesjum óskuðu eftir honum, var einmitt að varpa ljósi á það hvað væri að tefja málin og í mörgum tilfellum var það mjög lítið. Varðandi kísilver er það útgáfa reglugerðar sem ég átti orðastað við hæstv. iðnaðarráðherra um fyrr í vikunni sem hún gaf fyrirheit um að væri að ganga til baka. Í tilfelli gagnavers vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um vandamál í sambandi við virðisaukaskatt á búnað til reksturs gagnavera, hvar er það mál statt? Það hefur verið stopp í fjármálaráðuneytinu í 18 mánuði og fyrir rúmum mánuði ræddum við það og ákveðin fyrirheit voru gefin um að það væri að leysast. Hvar er það mál statt?

Hindranirnar eru sem sagt ekki óyfirstíganlegar. Við heyrðum umræðu áðan um álverið í Helguvík. Ég var á fjölmennum fundi í morgun og er tiltölulega bjartsýn eftir þann fund um að allir þeir aðilar sem að málinu koma ætli að leggja sig fram um að klára það og ég verð að hrósa hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það framtak að fá alla aðila að borðinu í sama herbergi til að hægt sé að ræða út um þessa hluti og ég leyfi mér að vera bjartsýn. Þó verð ég að segja að það hryggði mig óendanlega mikið eftir að hafa setið þennan títtnefnda fund í Stapanum þar sem hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson sýndi fundinum þá virðingu að mæta, og ég þakka honum fyrir það, að það er líkt og hann hafi ekki verið að hlusta. Hann heyrði ekki ákall um samstöðu, hann heyrði ekki ákall Suðurnesjamanna um að fá ríkisstjórnina, stjórnvöld, pólitíkusa alls staðar að, sveitarstjórna og Alþingis, að fá alla saman að því borði að koma málum í gang. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra fór í viðtal um leið og hann kom út og sagði: Þetta var sterkur fundur. Samstaðan var gífurleg en ég verð þó að segja það að Suðurnesjamenn verða einfaldlega að fara að líta til annarra átta. Menn eru komnir í öngstræti og hugsa bara um ál, ekkert nema ál og aftur ál.

Eins og Gylfi Arnbjörnsson sagði á þessum fundi, með leyfi forseta:

„Það er öfundsvert að hafa hér fimm, sex og sjö tækifæri þar sem eigendur eru komnir áleiðis að því að taka ákvarðanir en stoppa meira og minna á því að við á heimavígstöðvunum, og þá á ég við landið allt, getum ekki tekið ákvarðanir um að ýta þessu áfram.“

Við höldum áfram í karpinu. Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti ekki komið með okkur í þessa vegferð, hvort hann geti ekki komið sínu fólki í skilning um að það er mikilvægara að fólk hafi atvinnu heldur en halda áfram í einhverjum pólitískum skotgröfum.

Varðandi annað mál sem snýr beint að Suðurnesjunum og verksviði hæstv. fjármálaráðherra þá verð ég að spyrja hann út í það sem fram kom í fjárlagafrumvarpinu um boðaðan skatt á áfengi og tóbak í fríhafnarverslun. Hefur hæstv. fjármálaráðherra gert sér grein fyrir því að með því að leggja slík vörugjöld á er ekki verið að færa verslun á áfengi og tóbaki til ÁTVR í Kringlunni (Forseti hringir.) heldur til Kaupmannahafnar, London og annarra flugvalla? Og þar sem helmingur veltu Fríhafnarinnar kemur frá komuversluninni gæti þetta haft í för með (Forseti hringir.) sér að 50 manns á Suðurnesjum missi vinnuna til viðbótar við allt hitt. Hafði hæstv. fjármálaráðherra gert sér grein fyrir þessu þegar tillögurnar voru lagðar fram?