139. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2010.

skilaskylda á ferskum matvörum.

12. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er flutt í þriðja sinn og vonandi sannast það nú að allt er þá þrennt er og að málið verði afgreitt að þessu sinni. Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum.

Um þetta hefur verið talsverð umræða, a.m.k. á vettvangi þeirra sem hafa hagsmuna að gæta í þessum málum sem geta til að mynda verið bændur, framleiðendur, iðnaðurinn, smásöluverslunin og auðvitað heildsöluverslunin. Skilaskylda felur í sér að kjósi verslunareigandi svo getur hann sér að kostnaðarlausu krafist þess að framleiðandi taki til baka framleiðsluvöru sem er að nálgast síðasta söludag. Þetta á við um íslenskar matvörur en ekki þær erlendu. Margir íslenskir matvælaframleiðendur telja þetta fyrirkomulag skapa mikla skekkju í samkeppnisumhverfi að innlendir framleiðendur þurfi að bera kostnað af þeirri rýrnun sem hlýst af því þegar vöru er skilað, en sá sem flytur inn matvöru geti komið ábyrgðinni og kostnaðinum af sér yfir á herðar kaupmannsins. Þetta fyrirkomulag leiðir síðan til þess að það skapast hvatning fyrir seljanda vörunnar að halda fremur fram þeirri vöru sem ekki er með skilaskyldu, þ.e. innfluttu vörunni, til þess að tryggja að kostnaðurinn af rýrnun falli ekki á hann.

Þau sjónarmið hafa á hinn bóginn heyrst af hálfu seljenda í smásöluversluninni að í skilaskyldu felist líka trygging fyrir því að ekki verði óeðlileg birgðasöfnun í verslun með tilheyrandi kostnaði og rýrnun sem að lokum falli á neytendur og birtist síðan í hærra vöruverði.

Þess ber þó að geta að margir birgjar sjá sjálfir um að fylla á í búðum og stýra magni, a.m.k. að mestu leyti. Það er hins vegar mjög mikilvægt að um þessi mál gildi sanngjarnar leikreglur sem tryggi samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi hinnar gríðarlegu samþjöppunar í matvælaverslun sem hefur orðið hér á landi þar sem tvær verslunarkeðjur ráða drýgstum hluta markaðarins eins og allir vita.

Þessu máli var vísað til umsagnar á síðasta löggjafarþingi og nær allir umsagnaraðilar hvöttu til að tillagan yrði samþykkt. Bændasamtökin vísuðu til samþykktar búnaðarþings í þessa veru. Matís lýsti yfir stuðningi við hugmyndina. Neytendasamtökin telja að slíkar reglur kunni að leiða til verðlækkunar og þar með til hagsbóta fyrir neytendur. Samtök iðnaðarins fagna því að mótaðar verði slíkar reglur og viðskiptaráðuneytið hvetur til þess að tillagan verði samþykkt. Matís telur forsendur tillögunnar umdeilanlegar, en hvetur til að matvælaverð verði tryggt ef af samþykkt tillögunnar verður.

Auðvitað vakir ekki fyrir neinum að búa til reglur sem á einhvern hátt ógna matvælaverndinni. Þessi tillaga snýst ekki um það. Hún snýst um það að búa til sanngjarnar leikreglur á markaði þar sem er mikil samþjöppun.