139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:53]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um háskóla. Það er þarft mál að ræða því að háskólasamfélagið ekki síður en aðrir geirar samfélagsins tók fullan þátt í þeirri firringu sem hér átti sér stað í aðdraganda hrunsins, alla vega sumar deildir þess. Í mínu tilviki, ég var nærri sjö ár við bandaríska háskóla og eftir að ég kom heim og horfi yfir þá akademísku flóru sem hér er get ég ekki annað er haldið áfram að hneykslast á því umhverfi sem íslenskt háskólaumhverfi er. Það eru sjö háskólar á Íslandi að mig minnir í 320 þús. manna samfélagi. Auðvitað er borðleggjandi að það þarf að sameina þessa háskóla og það þarf að koma meira skipulagi á háskólastarf.

Það sem ég hef horft upp á á þeim árum síðan ég kom heim er að hér hefur verið alveg botnlaus útþensla í meistaranámi á háskólastigi á fjölmörgum sviðum. Mig langar bara að lýsa því yfir að ég geld varhuga við þeirri þróun. Ég tel að hún sé óæskileg. Meistaranám, akademískt meistaranám skiptir miklu meira máli en svo að það sé endilega til á Íslandi. Heimskt er heimaalið barn, segir einhvers staðar. Eitt af því sem ég lærði og er eitt mitt besta veganesti eftir að hafa verið í námi erlendis er það að maður fær einfaldlega aðra sýn á heiminn og sitt heimaland við það að búa erlendis. Það er ómetanlegt að geta verið í námi, akademísku námi í erlendum háskólum. Það á ekki að vera stefna að þenja út og bjóða upp á fjölbreytt meistaranám á Íslandi, það ætti miklu frekar að vera stefna að skera niður meistaranám á Íslandi og reyna að senda sem flesta til náms erlendis. Þannig fáum við mjög fjölbreytta og mjög góða menntun aftur inn í landið, að vísu þurfa að vera til staðar störf fyrir þetta fólk. Þetta er stefnubreyting sem ég held að þurfi að taka alvarlega til athugunar með að breyta.