139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[15:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu, það hefur margt komið fram í athugasemdum við hvernig unnið var að málinu og ég ætla svo sem ekkert að velta því frekar upp. Núna stendur yfir samráðsferli við aðila á öllum þessum svæðum og stofnunum. Það sem ég vil biðja fólk um að vara sig á er að vera ekki að ýkja myndina, þ.e. hér er verið að tala um lýsingar, að fólk fái ekki að deyja heima í héraði, ég veit ekki hvaða staði er verið að tala um.

Ég held að það skipti líka mjög miklu máli að menn skoði hvernig ástandið er í dag. Til dæmis er ekki fæðingardeild á umræddum stað, Húsavík, og þegar við hittum framkvæmdastjórann á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sagði hann að sú breyting hefði verið mjög góð og jákvæð fyrir þá þegar fæðingar voru færðar þaðan til Akureyrar. Þannig er það víðast hvar um landið, það eru ekki víða fæðingardeildir á landinu, samt tala menn um að flytja eigi konur yfir fjallvegi hingað og þangað til þess að fæða. Það eru fæðingar á Ísafirði og við getum nefnt fleiri staði, en við skulum bara fara yfir málið nákvæmlega eins og það er, hvaða þjónusta er veitt hvar, hvernig við getum jafnað þá þjónustu og hvernig við getum tryggt góða grunnþjónustu.

Þar hef ég lagt mikla áherslu á að öflug heilsugæsla sé fyrir hendi og það er bara samkvæmt lögum. Hér á landi eru þrjár tegundir af stofnunum og síðan er almenn sjúkrahússþjónusta á hverju heilbrigðissvæði: Á Akureyri á Norðurlandi, á Ísafirði á Vestfjörðum, á Neskaupstað á Austurlandi og á Suðurlandinu þarf að vera almenn sjúkrahússþjónusta annaðhvort í Vestmannaeyjum eða á Selfossi. Síðan er það Reykjavík. Við þurfum að fara yfir þessi mál vegna þess að við verðum að nota tækifærið núna þegar við færum málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna — við ætlum líka að færa málefni aldraðra — og styrkja þjónustuna með sveitarfélögunum. Það er hluti af því sem ég óskaði eftir, að menn skoðuðu dæmið þannig á hverjum stað fyrir sig.

Ég ætla svo að segja að lokum að heilbrigðismálin á að vinna eftir langtímaáætlunum. Það á að vera stefna til lengri tíma og auðvitað eiga að vera skilgreiningar og mælingar í málaflokknum þannig að við vitum hvert við stefnum. Það hlýtur að vera markmiðið og ég hef sagt líka að þessi mál eigi í meginatriðum að vera hafin yfir pólitísk átök (Forseti hringir.) vegna þess að kerfi eins og heilbrigðiskerfið, menntakerfið og annað eiga ekki að sæta breytingum með hverjum ráðherra. Hér var fyrirkomulagi breytt sem orðið var 20 ára gamalt og hver einasti ráðherra, þar með talinn hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, (Forseti hringir.) hefur talað fyrir þessum breytingum sem ráðherra.