139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af hverju er þetta ekki tekið fram í lagatextanum þannig að menn viti hvað „sérstakir hagsmunir“ þýðir? Nú getum við hugsað okkur að einhver kröfuhafi, einhver banki sem á fullt af kröfum, selji kröfuna rétt fyrir gjaldþrot. Einhver maður kaupir hana og eignast þá kröfu upp á að fá greidda 1 millj. kr. eða 2, þá er það í huga þessa manns afskaplega sérstæð krafa. Hann á enga aðra kröfu neins staðar. Þetta er hans eigin krafa þannig að ég get ekki betur séð en hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrninguna, hann er að ná í þessa milljón sem hann á kröfu til.

Ég mundi segja að menn ættu að liggja yfir því að finna þarna orðalag og ég skora á hv. nefnd að vinna það í sameiningu, bæði stjórn og stjórnarandstöðu, að geta um þessi sérstöku tilfelli eins og sektargreiðslur og annað slíkt, og þannig rjúfa fyrningu þar. Ég mundi gjarnan vilja sjá, jafnvel í slíkum tilfellum, að einhver endir sé á því dæmi þannig að menn komist einhvern veginn út úr þessu og detti ekki ofan í sama farið og er í dag. Þeir aðilar sem skulda slíkar kröfur eru líka fólk sem á sinn rétt og ekki er hægt að setja þá í ævilangt skuldafangelsi, að fá ekki kreditkort og geta ekki lifað almennilegu lífi. Ég held því að menn ættu að prjóna við þetta svo að menn detti ekki ofan í þetta almenna far, þar sem hægt er að framlengja aftur og aftur, heldur að sett verði eitthvert lokamark á það líka.

Það er mjög mikill harmleikur fyrir fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefur lent í því að hafa skrifað upp á eða skuldar skatt eða eitthvað slíkt, áætlanir jafnvel eða sektargreiðslur af ýmsum ástæðum, rimlagjöld og annað slíkt, að vera ævilangt ófjárráða.