139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér í andsvar við mig. Mér finnst samlíkingin svolítið skrýtin, ef það kviknar í húsi nágranna míns þá verði ég að gera eitthvað til að bjarga honum svo að ekki kvikni í mínu húsi. Það er kviknað í mínu húsi og þá finnst mér að nágrannalöndin eigi að hjálpa okkur en ekki öfugt. Ef hægt er að nota þá samlíkingu að kviknað hafi í einhvers staðar þá kviknaði svo sannarlega í hér á Íslandi á haustdögum 2008. Þessi ríki voru ekki tilbúin til að rétta okkur hjálparhönd þá. Bretar og Hollendingar beittu okkur grímulausum kúgunum við að koma yfir á íslensku þjóðina skuldum einkaaðila, ríkisvæða skuldir einkaaðila. Þessu ætlaði ríkisstjórnin að taka fegins hendi og steypa þessum skuldum yfir þjóðina. Bara Icesave-vextirnir sem sparast hafa á þessu ári eru fjárlagagatið sem nú er verið að stoppa upp í, ég minni þingmanninn á það.

Frú forseti. Ég sé það núna, fletti upp á bls. 2 í fjárlagafrumvarpinu — ég sagði í ræðu minni áðan að framlög til þróunarmála Íslendinga væru 3 milljarðar á ári. Nú hef ég fundið þetta samanlagt og þetta eru hvorki meira né minna en 5,5 milljarðar í fjárlagafrumvarpi 2011. Hvernig er hægt að fara fram á það af hv. þingmanni að óska eftir því að þetta verði stóraukið? Þingmenn verða að átta sig á því að þær greiðslur sem fara úr landi eru dýrmætur gjaldeyrir þó að þetta sé fært í íslenskum krónum í fjárlagafrumvarpinu.

Fólk hefur mismunandi áherslur og skoðun í þróunarhjálp. Ég er á þeirri skoðun að þegar stjórnvöld í ríki þar sem neyð ríkir, eins og nú er, geta ekki hjálpað þjóð sinni þá eigi þau ekki að koma nálægt því að hjálpa öðrum þjóðum því að fyrst verða viðkomandi að sanna sig heima fyrir og það er þessi ríkisstjórn svo sannarlega ekki að gera. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir úrbótum fyrir heimilin og fjölskyldurnar.