139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég frábið mér orð sem hv. þingmaður lét úr munni sér fara að ég væri sérstakur aðdáandi Evrópusambandsins. Það hefur aldrei komið fram í mínu máli, hvorki riti né ræðu. Ég er hins vegar talsmaður þess að við skoðum inngöngu í Evrópusambandið og fáum úr því skorið hvort við fáum góðan samning til að fara þar inn. Ef hann verður vondur mun ég fella hann, ef hann verður góður kemur til greina að greiða atkvæði með honum. Þetta er öll aðdáun mín á Evrópusambandinu.

Hvað gjaldeyrishöftin varðar tel ég að þau verði vitaskuld að afnema. Það kemur til greina að afnema þau í áföngum, það kemur til greina að afnema þau á einu bretti svo sem sérfræðingar hafa bent á. Þarna verðum við náttúrlega að horfa til þess hvaða áhrif þetta hefur á íslenskan efnahag og þess vegna tel ég koma mjög til greina að skattleggja þetta með einhverjum hætti á leiðinni út vegna þess að annars getur þetta komið sér mjög illa (Forseti hringir.) eðli málsins samkvæmt fyrir íslenskan efnahag.