139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mitt mat að hér hafi verið vikið frá verklagsreglum Landsbankans um opið og gagnsætt söluferli. Svo virðist sem stjórnendur Landsbankans telji að verklagsreglurnar eigi einungis við ef bankinn selur frá sér dótturdótturfyrirtæki en ekki dótturfyrirtæki. Vestia hefði átt að fara í söluferli. Allt það ferli sem nú er í gangi hefði getað verið fyrir opnum tjöldum.

Ég fagna því hins vegar að fyrirtækið sé komið undan eignarhaldi Landsbankans, þ.e. út frá samkeppnissjónarmiðum, hugsanlegum hagsmunaárekstrum og rekstrarstöðu bankans, en það sjónarmið hefur verið uppi í umræðunni hvort lífeyrissjóðirnir eigi að fjárfesta í einkafyrirtækjum á markaði. Mín skoðun er sú að það sé gríðarlegur hagur af því ef við nýtum fjárfestingargetu lífeyrissjóðanna til að styrkja atvinnulíf okkar. Það er miklu betra fyrir þá að við höldum uppi atvinnustigi í landinu og það er margvíslegur þjóðhagslegur ávinningur af því að styrkja atvinnulífið. En gætum að því að í lögum um Framtakssjóðinn segir að hlutverk hans sé m.a. að taka þátt í að móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs.

Fyrst lífeyrissjóðirnir eru að fjárfesta í atvinnulífinu og réttlæta veru sína í fyrirtækjunum út frá heildarhagsmunum íslensks atvinnulífs eiga þeir ekki að fjárfesta í þjónustu- og samkeppnisfyrirtækjum heldur eftirláta einkaaðilum að gera slíkt. Lífeyrissjóðirnir eiga að ganga alla leið, vera trúir þessari stefnu sinni og fjárfesta í þeim atvinnugreinum sem eru vaxtargreinar íslensks atvinnulífs. Það eru fyrirtækin sem eru í hugverkaiðnaði, útflutningi og alþjóðlegri samkeppni, eru að færa verðmæti inn í landið og stækka kökuna. Ég set spurningarmerki við að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í símafyrirtæki, tölvufyrirtæki, plastfyrirtæki eða byggingarvöruverslun með fullri virðingu fyrir þeim fyrirtækjum. Þau eru í innlendum samkeppnisrekstri.

Lífeyrissjóðirnir eiga að taka þátt í að móta með okkur þá framtíð sem við viljum öll sjá í íslensku atvinnulífi, þ.e. að styrkja og efla fyrirtækin sem skapa verðmæti til útflutnings, í orkufyrirtækjum og tengdri þjónustu, gagnaverum og öðrum sprotum þar sem samkeppnisforskot fyrirtækjanna byggir á hugviti og verðmætasköpun inn í landið. Þá getum við haldið ungu, vel menntuðu fólki hér í landinu og það er fjárfestingarstefna sem kemur lífeyrissjóðunum vel.